Aldarsaga UMSK 1922-2022

310 Siglingarnar heilluðu mig Birgir Ari Hilmarsson (f. 1964) kom mikið við sögu siglinga innan Ýmis og starfaði síðan lengi á vettvangi UMSK. Hann ólst upp í Kópavoginum og var fyrst spurður að því hvernig íþróttalífið hefði verið þar á hans bernskuárum. Vinsælustu íþróttagreinarnar voru handbolti, fótbolti og frjálsar íþróttir, segir Birgir Ari. Breiðablik var aðalfélagið en ný félög spruttu upp í stækkandi bæ: Gerpla, HK, ÍK og Ýmir. Helstu íþróttamannvirkin voru gamla sundlaugin á Rútstúni, íþróttahúsin við Kópavogsskóla og Kársnesskóla, Smárahvammsvöllur, Vallargerðisvöllur og völlurinn við Lyngheiði, kallaður Heiðarvöllur. Kópavogsvöllur var í byggingu á þessum árum og ekki má gleyma Íþróttahúsinu Digranesi sem þótti stórkostleg íþróttahöll á þeim árum. Þannig að það var úr nógu að velja á íþróttasviðinu. Já, ég var nú aldrei efnilegur í boltagreinunum en það voru siglingarnar sem fönguðu huga minn, ég sótti mikið í aðstöðuna í Vesturvör þar sem Æskulýðsráð Kópavogs var með starfsemi fyrir siglingar. Þangað komu margir krakkar og maður þurfti að mæta snemma til að tryggja sér bát til að sigla á. Þetta voru ekki skipulagðar æfingar heldur lærðum við mikið hvert af öðru en ávallt var þarna starfsmaður sem sinnti eftirliti. Hvenær kom Ýmir til sögunnar? Félagið var stofnað árið 1971 af áhugamönnum um siglingar, meðal annars með það að markmiði að stofnað yrði siglingasamband innan ÍSÍ. Ýmir hafði aðstöðu í Vesturvör og gerði þar út báta ásamt því að félagsmenn smíðuðu eigin báta. Félagarnir byggðu hús í sjálfboðavinnu undir starfsemina, það var tekið í notkun árið 1986. Síðar var gerður samningur við Kópavogsbæ um nýja siglingamiðstöð við Vesturvör, hún varð miðpunkturinn í hverfi sem var í uppbyggingu og það má segja að nýtt skref hafi verið stigið í siglingaíþróttum á Íslandi þegar húsið var vígt árið 2009. Birgir Ari var formaður Ýmis á árunum 1988– 1990 og aftur 2008–2013, hann gegndi einnig ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir Ými og Siglingasamband Íslands og var í stjórn sambandsins samfellt frá 1992 til 2007, síðustu árin sem formaður. Ég kenndi á fjölmörgum siglinganámskeiðum, bæði fyrir börn og fullorðna, segir Birgir Ari, og þjálfaði keppnishóp Ýmis um margra ára skeið. En hvenær fórstu að vinna á vettvangi UMSK? Eftir að ég var kosinn formaður Ýmis sótti ég mitt fyrsta ársþing UMSK, landsmótið í Mosfellsbæ 1990 var þá í undirbúningi og ég tók að mér að vera sérgreinastjóri fyrir siglingar á mótinu, fyrsta verkefnið mitt var að finna stað fyrir siglingakeppnina. Fyrir valinu varð Þerneyjarsund utan við Álfsnes á Kjalarnesi en þar var skipalægi á miðöldum. Ég var kjörinn í stjórn UMSK árið 1989 og var þá kominn inn í hringiðuna við undirbúning landsmótsins, bæði sem stjórnarmaður og sérgreinastjóri í siglingum á mótinu. Hvað er þér efst í huga þegar þú lítur um öxl til þessara ára? Þetta var mjög gefandi starf og gaman að vinna með öllum þessum fjölda sjálfboðaliða sem lagði metnað sinn í að halda úti starfsemi félaganna og héraðssambandsins. Hefur þú enn áhuga á siglingum? Já, hann hverfur aldrei og hefur fylgt mér frá því að ég var að leika mér á bátunum í Vesturvör þegar ég var ungur drengur, segir Birgir Ari að lokum.240 Birgir Ari Hilmarsson heillaðist ungur af siglingaíþróttinni hjá Æskulýðsráði Kópavogs. Síðar starfaði hann lengi innan Siglingafélagsins Ýmis og á vettvangi UMSK þar sem hann var framkvæmdastjóri í 17 ár. Hér er hann um borð í Aríu, 35 feta skútu sem hann hefur notað bæði til keppni og ferðalaga.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==