Aldarsaga UMSK 1922-2022

298 svo loksins í haust að hugmyndin varð að veruleika. Það var Umf. Kjalnesinga sem tók að sér að standa fyrir fyrsta mótinu og var það haldið dagana 24. og 25. nóvember í Félagsheimilinu Fólkvangi á Kjalarnesi. Teflt var í tveimur flokkum og til þeirra gefnir veglegir farandgripir af hreppsfélögunum á Kjalarnesi og í Kjós, auk þess sem veittir voru verðlaunapeningar fyrir 3 efstu sætin í hvorum flokki.“200 Riddarar taflborðsins hurfu aftur af vettvangi UMSK þar sem aðrar greinar áttu meira upp á pallborðið hjá aðildarfélögunum. Það voru því nokkur tíðindi þegar skákdeild var stofnuð innan Breiðabliks haustið 2012 og lifir enn góðu lífi. Æfingar fara fram undir stúkunni á Kópavogsvelli, deildin er aðili að Skáksambandi Íslands, er í samstarfi við Skákskóla Íslands, styður við skákkennslu í grunnskólunum í Kópavogi og gengst árlega fyrir einstaklings- og sveitakeppni innan skólanna. Sveit Breiðabliks hefur tekið þátt í landsmótinu í skólaskák með góðum árangri og einnig á fleiri mótum. Árið 2018 var frammistöðu félagsmanna lýst með þessum hætti: „Þeir Vignir Vatnar, Stephan Briem, Birkir Ísak og Arnar Milutin úr skákdeild Breiðabliks vörðu heiður Íslands á Ólympíuskákmóti 16 ára og yngri og urðu þeir landi og félaginu til sóma. Skákhátíð MótX var sett með glæsibrag í björtum sölum Breiðabliksstúku og var hátíð sett með pompi og prakt þegar Hilmar Viggósson lék fyrsta leik í skák Hjörvars Steins og Vignis Vatnars Stefánssonar.“201 Árið 2020 voru 65 iðkendur í skákdeild Breiðabliks en vegna COVID-faraldursins færðust æfingar og mót úr raunheimum yfir í netheima – um hríð. Á skíðum og skautum skemmti ég mér Blikar ryðja skíðabrautina Skíðamennska hefur lengi fylgt mannfólkinu en fyrsta skíðafélagið var stofnað í Noregi árið 1861. Íslendingar notuðu einnig skíði frá upphafi vega en þó var notkun þeirra minni í aldanna rás en ætla mætti.202 Í fyrri hluta bókarinnar er greint frá því þegar Ungmennafélag Reykjavíkur tók þátt í að byggja skíðabraut í Öskjuhlíð snemma á 20. öld. Sú framkvæmd tókst ekki sem skyldi en félagið varð síðar eitt af stofnendum UMSK árið 1922. Ljóst var að leita þurfti út fyrir Reykjavíkurborg til að fá vænlegt land undir skíðaiðkun. Á 3. áratugnum hófust ferðir að Kolviðarhóli, skíðaskálinn í Hveradölum kom til sögunnar árið 1935, félagar í Ármanni byggðu skíðaskála í Jósefsdal í Bláfjöllum árið 1936, KR-ingar hösluðu sér völl í Skálafelli og einnig Íþróttafélag kvenna sem hóf þar skálabyggingu árið 1934.203 Fyrsta skíðalandsmót Íslands var haldið árið 1937, þar var keppt í skíðagöngu og skíðastökki. Snemma í sögu UMSK hvatti íþróttanefnd sambandsins til iðkunar á „þjóðlegum“ íþróttagreinum, þar á meðal glímu, skíða- og skautahlaupi. Skipulagt skíðastarf innan UMSK hófst þó ekki fyrr en löngu síðar og þar ruddu Kópavogsbúar skíðabrautina. Skíðadeild Breiðabliks var stofnuð í Félagsheimili Kópavogs 14. desember 1972, um það leyti stefndi í að Bláfjöll (685 m y. s.) yrðu skíða- og útivistarsvæði. Árið 1973 voru þau friðlýst sem fólkvangur og stóðu að honum sveitarfélögin Hafnarfjörður, Keflavík, Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes og Selvogshreppur. Í gildandi aðalskipulagi fyrir Kópavog segir: „Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins er í Bláfjöllum og er rekið sameiginlega af sveitarfélögunum sem aðild eiga að Bláfjallafólkvangi. Þar er Skíðamiðstöð Kópavogs, Breiðablik. Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins er með aðstöðu fyrir gönguskíða-, svig- og snjóbrettaíþróttir. Stærð 390 ha.“204 Vegur var lagður upp í Bláfjöll, settar upp skíðalyftur og reistir skíðaskálar, fyrsta lyftan þar var opnuð árið 1974 og hét Lilli klifurmús. Guðmundur Antonsson (1943–2022) málarameistari var fyrsti formaður skíðadeildar Breiðabliks og fyrsta skíðaferðin í Bláfjöll á vegum deildarinnar var farin hálfum mánuði eftir stofnfundinn. Í minningargrein um Guðmund er þess minnst þegar hann og fleiri hófu að byggja upp aðstöðu Breiðabliks í Bláfjöllum: „Gummi setti heilmikla vinnu og kraft í þetta félag og gerði sér grein fyrir að það þyrfti að helga sér svæði í Bláfjöllunum og var það valið norðan Ármannssvæðisins. Þangað var dreginn vinnuskúr á hjólum og var það fyrsta aðstaðan. Menn gerðu sér einnig grein fyrir að það þyrfti lyftu og var ráðist í kaup á dráttarvél sem gæti snúið kaðalspili. Til að traktorinn gæti haldið strekkingu á kaðli þurfti að fá á hann svokölluð Hillarys’ belti sem fundin voru og keypt. Sveinn Gíslason breytti hásingu svo hún gæti Guðmundur Antonsson var fyrsti formaður skíðadeildar Breiðabliks.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==