Aldarsaga UMSK 1922-2022

287 Árið 1971 var frjálsíþróttadeild Stjörnunnar stofnuð og var Júlíus Arnarson fyrsti formaður hennar. Hann sá um æfingar í Garðabænum en auk þess sótti mesta keppnisfólkið æfingar á Fífuhvammsvelli í Kópavogi hjá Breiðabliki og einnig hjá FH í Hafnarfirði. Þegar komið var fram á 8. áratuginn dró máttinn úr frjálsíþróttadeild Stjörnunnar og var hún að lokum lögð niður og Garðbæingar sneru sér að öðrum íþróttagreinum. Fékk verðlaun án þess að keppa! Alda Helgadóttir (f. 1951) var mikil afrekskona á vettvangi Stjörnunnar, Breiðabliks og UMSK. Hún keppti með Breiðabliki í handknattleik en Stjörnunni í frjálsum íþróttum, einkum í spjótkasti og spretthlaupum, og síðan með UMSK, bæði í frjálsum íþróttum og handbolta. Alda setti Íslandsmet í spjótkasti árið 1969 þegar hún kastaði 36,73 m og var einnig í boðhlaupssveitum UMSK í 4x100 m hlaupi og 4x400 m hlaupi sem settu Íslandsmet. Hún hlaut starfsmerki UMSK árið 1999, heiðursviðurkenningu Stjörnunnar (Gullstjörnuna) árið 2000 og silfurmerki sambandsins árið 2002. Í viðtali við Öldu haustið 2022 barst talið fyrst að frjálsum íþróttum, hvernig var aðstaðan í Garðahreppi þegar þú hófst að æfa íþróttir þar? Hún var nánast engin, svarar Alda, gömul stökkgryfja var við barnaskólann en þegar Ingvi Guðmundsson varð formaður Stjörnunnar árið 1967 hóf hann strax að lagfæra gryfjuna og stika út 100 og 200 metra vegalengdir í grennd við skólann. Ingvi bjó þarna rétt hjá og hefur líklega séð til mín í handbolta út um eldhúsgluggann hjá sér. Einn daginn kom hann með spjót, sem hann hafði keypt fyrir félagið, og spurði hvort ég vildi ekki prófa það, sem ég gerði og fékk strax áhuga á spjótkasti. Á einhverjum fundi veturinn 1968 afhenti Ingvi mér litla spjótkastsstyttu og lét skrifa á hana: AFREKSVERÐLAUN Alda Helgadóttir Ég fékk sem sagt verðlaun án þess að keppa en eftir þetta fór ég að einbeita mér að spjótinu. Varst þú ekki með frjálsíþróttanámskeið fyrir krakkana í hreppnum? Jú, þrátt fyrir þessar slæmu aðstæður var ég með sumarnámskeið fyrir 8–12 ára stúlkur, svarar Alda. Við æfðum við barnaskólahúsið og á grasflötunum þar fyrir neðan, efndum til keppni og skráðum niður árangur, frjálsíþróttadeild Stjörnunnar var stofnuð árið 1971. Við fórum með nokkra krakka á Andrésar andar leika á Akureyri, ekki á skíðamót heldur frjálsíþróttamót. En æfðir þú einnig frjálsar íþróttir með UMSK? Jú, ég sótti í félagsskapinn þar, við æfðum í Kópavogi þótt aðstaðan væri litlu betri þar. Ólafur Unnsteinsson var þjálfari, við æfðum á túni í Fífuhvamminum og þar var smáskúr til að klæða sig og geyma áhöld. Þetta þættu frumstæðar aðstæður í dag en ég á samt mjög góðar minningar frá æfingunum í Kópavoginum.185 Alda Helgadóttir, afrekskona í frjálsum íþróttum og handknattleik, hlaut silfurmerki ÍSÍ árið 2015. Með henni á myndinni er Hafsteinn Pálsson, fyrrum formaður UMSK og síðar stjórnarmaður í ÍSÍ.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==