Aldarsaga UMSK 1922-2022

286 Frjálsar íþróttir og Stjarnan Strax við stofnun Stjörnunnar árið 1960 urðu frjálsar íþróttir ofarlega á blaði hjá félaginu og voru haldnar æfingar í Garðahreppi undir stjórn Elísabetar Brand, íþróttakennara og spjótkastara. Í aðstöðuleysi þessara ára voru víðavangshlaup vinsæl og um árabil annaðist Stjarnan svokallað Bessastaðahlaup í samvinnu við Ungmennafélag Bessastaðahrepps. Árið 1968 mættu nokkrir einstaklingar úr Stjörnunni á héraðsmót UMSK og unnu til verðlauna. Þetta voru þau Alda Helgadóttir, Inga Hafsteinsdóttir og Ingvi Guðmundsson sem hafði áður starfað með Breiðabliki en var nú orðinn formaður Stjörnunnar. Á þessu héraðsmóti sigraði Ingvi í kringlukasti og varð annar í kúluvarpi, haft var eftir honum að sér hefði þótt árangur sinn slakur, enda væri hann æfingalaus og gamall karl! Kvaðst hann vonast til þess að unga fólkið myndi hefja frjálsíþróttamerkið á loft.182 Þessi ósk Ingva gekk eftir, afreksfólki úr Stjörnunni fjölgaði stórum næstu árin og varð hluti af frjálsíþrótta​liði UMSK. Í þeim hópi voru meðal annarra Alda Helgadóttir, Kristín Björnsdóttir, Ragnhildur Pálsdóttir og Erlingur Þorsteinsson. Ragnhildur var afar öflugur millivega- og langhlaupari og setti mörg met á sínum ferli, þar á meðal UMSK-met og Íslandsmet og á enn UMSK-metið í 1000 m hlaupi sem hún setti árið 1973.183 Hún ruddi hlaupabrautina fyrir konur, ef svo má segja, því fram að þessu höfðu þær lítið stundað lengri hlaup. Ragnhildur var til dæmis fyrsta íslenska konan sem hljóp 1500 m hlaup á innan við fimm mínútum og 3000 m hlaup á innan við 11 mínútum.184 Alda Helgadóttir var mikil afrekskona í frjálsum íþróttum og handknattleik, hún kenndi einnig á íþróttanámskeiðum í Garðabæ fyrir ungt Stjörnufólk. Ragnhildur Pálsdóttir úr Stjörnunni setti mörg UMSK-met í hlaupum á sínum ferli. B-mót Hinn 22. ágúst 1971 var fyrsta B-mót UMSK í frjálsum íþróttum haldið við Félagsgarð í Kjós, þar áttu þeir keppnisrétt sem höfðu ekki náð 550 stigum í viðkomandi íþróttagrein á árunum 1970 og 1971, samkvæmt stigatöflu Frjálsíþróttasambands Íslands. Þessar reglur voru notaðar til að gefa þeim tækifæri sem ekki voru meðal mesta afreksfólksins. Guðmundur Guðmundsson, framkvæmdastjóri UMSK, stýrði mótinu sem tókst vel, keppendur voru um 50 talsins frá fimm félögum. Ári síðar var aftur haldið B-mót við Félagsgarð, það féll niður árið 1973, mótið 1974 var fámennt og með því lauk sögu B-móta í frjálsum íþróttum á vegum UMSK. B-mót var einnig haldið á Akureyri og þangað fóru keppendur frá UMSK.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==