Aldarsaga UMSK 1922-2022

285 í lengri hlaupum, sett á árunum 1991–1995.176 Hún hlaut frjálsíþróttabikar UMSK á árunum 1992 og 1993. Nafna hennar, Fríða Bjarnadóttir úr Breiðabliki, á hins vegar UMSK-metin í maraþonhlaupi og hálfu maraþoni, sett árið 1986.177 Helsta baráttumálið hjá frjálsíþróttadeild Aftureldingar var nýr frjálsíþróttavöllur á Varmá sem var vígður árið 1989 og var forsenda þess að hægt væri að halda þar landsmót UMFÍ árið 1990. Árið 1993 varð Hlynur Chadwick Guðmundsson aðalþjálfari frjálsíþróttadeildarinnar og átti eftir að setja sterkan svip á allt starf hennar næstu áratugina. Auk hans þjálfuðu Guðmundur Daði Kristjánsson, Ingibjörg Halldórsdóttir og Rafn Árnason sem keppti einnig í spretthlaupum og stökkum og hlaut frjálsíþróttabikar UMSK árið 1997. Hlynur var ekki einungis þjálfari deildarinnar heldur einnig formaður hennar á árunum 1998–2012 og framkvæmdastjóri deildarinnar um skeið. Árið 2004 var frjálsíþróttadeild Aftureldingar sæmd heitinu „fyrirmyndardeild ÍSÍ“. Hún var sú fyrsta innan UMFA sem hlotnaðist sá titill og reyndar fyrsta frjálsíþróttadeild landsins sem varð fyrirmyndardeild.178 Við sama tækifæri var undirritað ákvæði um að allar deildir Aftureldingar stefndu að því að gerast fyrirmyndardeildir.179 Iðkendafjöldinn var lengi vel allt að 160 manns árlega og hlutfall kynjanna hefur jafnast. Á allra síðustu árum hefur þó fækkað í iðkendahópnum, Varmárvöllur hefur ekki fengið nauðsynlegt viðhald og það hefur dregið verulega úr áhuganum á frjálsum íþróttum í henni Mosfellssveit. Frjálsar íþróttir í Kjósinni Árið 1965 fagnaði Ungmennafélagið Drengur í Kjós hálfrar aldar afmæli sínu og var þá full ástæða til að efna til veislu þar sem Drengsfólk yljaði sér við gamlar minningar, ekki síst um góða tíma á sviði frjálsra íþrótta. Hitt var verra að íþróttalífið í Kjósinni var í nokkrum öldudal um það leyti og íþróttavöllurinn við Félagsgarð oft ónothæfur vegna bleytu. Á árunum 1963–1965 var enginn keppandi frá Dreng á héraðsmóti UMSK í frjálsum íþróttum og árið 1966 var ekki fyrirhugað af hálfu félagsins að standa fyrir æfingum. En þá tók Ragna Lindberg, frjálsíþróttakona og bóndi í Flekkudal í Kjós, til sinna ráða og efndi til æfinga á heimatúni sínu. Þangað mættu unglingar sveitarinnar, einkum stúlkur, sem fjölmenntu á héraðsmótið í ágústlok á Varmárvelli og kepptu þar við stúlkur úr Aftureldingu, Breiðabliki, Stjörnunni og af Álftanesi. Skipti það engum togum að Kjósarstúlkur náðu öðru sætinu á eftir Kópavogsstúlkunum í stigakeppninni og Ragna sigraði í kúluvarpinu. Þetta frumkvæði Rögnu ýtti við stjórnarfólki í Dreng og vorið 1967 hélt íþróttanefnd félagsins fund ásamt formanni UMSK. Í kjölfarið var leitað til Harðar Ingólfssonar, íþróttakennara í Kópavogi, sem var fyrrum afreksmaður á sviði frjálsra íþrótta og keppti þá fyrir Aftureldingu. Hörður tók að sér þjálfun tvisvar í viku þá um sumarið og Ragna kom einnig að æfingunum sem voru ekki við Félagsgarð heldur var horfið aftur til fortíðarinnar og æft á bökkum Bugðu þar sem Drengur var stofnaður árið 1915. Jafnframt var ráðist í lagfæringar á íþróttavellinum við Félagsgarð svo þar var hægt að æfa sumarið 1969 undir leiðsögn Kristjáns Jóhannssonar og Rögnu Lindberg.180 Í Kjósinni var líf á frjálsíþróttasviðinu árið 1970, margt efnilegt fólk mætti til leiks og Ragna Lindberg stjórnaði æfingum. Sumarið 1976 var Bjarki Bjarnason ráðinn frjálsíþróttaþjálfari hjá Dreng og sá um vikulegar æfingar við Félagsgarð, næstu sumur var Bjarki bæði þjálfari hjá Aftureldingu og Dreng. Á 9. áratugnum héldu æfingar í knattspyrnu og frjálsum íþróttum áfram við Félagsgarð, ýmsir sinntu þjálfarastörfum en þar kom að æfingar runnu sitt skeið á enda og síðasta íþróttamótið á vegum Drengs sem sögur fara af var haldið árið 1989. Þar með lauk langri keppnissögu þessa merka félags.181 Bikarkeppni Kjósarsýslu Í nokkur sumur var Bikarkeppni Kjósarsýslu í frjálsum íþróttum haldin, fyrst árið 1976 á Tungubökkum í Mosfellssveit. Bjarki Bjarnason var mótsstjóri og þarna leiddu saman hesta sína ungmennafélögin þrjú í Kjósarsýslu: Afturelding, Ungmennafélag Kjalnesinga (UMFK) og Drengur. Keppt var í fjórum aldursflokkum stúlkna og drengja og voru 3–5 greinar í hverjum flokki. Í sérhverri grein kepptu tveir frá hverju félagi. Búnaðarsamband Kjalarnesþings og Páll Aðalsteinsson gáfu verðlaunin en Páll gegndi þá bæði formennsku í Aftureldingu og UMSK. Foreldrar keppenda fjölmenntu á mótið til að hvetja sitt fólk. Í stigakeppninni sigraði Drengur naumlega, Afturelding var í 2. sæti og Kjalnesingar í 3. sæti. Bikarkeppni Kjósarsýslu hélt áfram í nokkur ár, ýmist á Tungubökkum, við Fólkvang á Kjalarnesi eða Félagsgarð í Kjós.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==