Aldarsaga UMSK 1922-2022

284 getið, að aðstaða á vellinum var slæm og árangur varð í samræmi við það.“172 Á 8. áratugnum stýrði Bjarki Bjarnason æfingum á Varmárvelli og hann varð fyrsti formaður frjálsíþróttadeildar UMFA sem var stofnuð á heimili hans á Mosfelli árið 1975. Hún var þriðja sérdeildin innan UMFA, á eftir handknattleiksdeild og knattspyrnudeild. Um þetta leyti varð mikil mannfjölgun í Mosfellshreppi, árið 1963 bjuggu þar um 800 manns en á næstu 20 árum nær fjórfaldaðist íbúafjöldinn.173 Slík íbúaþróun kallaði á öflugra íþróttastarf með deildaskiptingu hjá UMFA, betri íþróttavöll og íþróttahús. Ráðist var í byggingu íþróttahúss að Varmá sem var vígt árið 1977 eins og áður er getið. Með því hófst mikið blómaskeið hjá Mosfellingum á sviði frjálsra íþrótta og Afturelding gerði sig fljótlega gildandi á mótum í yngri flokkunum. Bjarki Bjarnason var aðalþjálfarinn í fyrstu, aðrir sem komu að þjálfun næsta áratuginn voru Jón Sverrir Jónsson, Jón Þ. Sverrisson, Sigvaldi Ingimundarson, Stefán Hallgrímsson og Inga Úlfsdóttir. Keppnisfólkið Inga Úlfsdóttir, Jón Þ. Sverrisson og Sigrún Guðný Markúsdóttir hömpuðu öll titlinum íþróttamaður Aftureldingar. Sigrún var þá aðeins 12 ára gömul en hún varð síðar frjálsíþróttaþjálfari hjá KR. Bjarki segir þannig frá keppnisferð á frjálsíþróttamót í Borgarnesi sumarið 1978: „Við vorum með UMSKfána meðferðis, því keppendur áttu að ganga fylktu liði gegnum bæinn og inn á völlinn. Okkur vantaði stöng fyrir fánann svo við gripum það til ráðs að fá lánað kústskaft í barnaskólanum. Þetta var í fyrsta skipti, sem ég hef borið svona þverfána og ég hélt ég yrði ekki eldri, því skaftið var svo stutt, að ég sá ekkert hvert ég var að fara. Það bjargaði málunum að Bjöggi [Björgvin Jónsson] og Beta [Elísabet Jónsdóttir] gengu mér sitt til hvorrar handar og kipptu sitt á hvað í hornaböndin á fánanum, ef ég stefndi á einhvern ljósastaurinn.“174 Á 9. áratugnum var einnig blómlegt starf hjá frjálsíþróttadeildinni og nýtt fólk kom til starfa. Bjarni Halldórsson var formaður deildarinnar 1985–1992 og margt gott keppnisfólk þeysti fram á keppnisvöllinn, til dæmis Fríða Rún Þórðardóttir, Helena Jónsdóttir og Heiða Björg Bjarnadóttir. Aðstaðan innanhúss var ágæt en ekki upp á marga fiska utandyra, Fríða Rún lýsti henni þannig: „Á sumrin æfðum við á malarvellinum þar sem gervigrasvöllurinn og nýja íþróttahúsið standa núna. Þarna var stökkgryfja og við notuðum hvítt kalk til að merkja 400 metra hlaupabraut á völlinn. Svo var líka malbikað plan fyrir hástökk og við notuðum gám fyrir áhaldageymslu. Við hliðina á malarvellinum var hringlaga braut sem var ætluð hestamönnum til að æfa reiðskjóta sína. Við æfðum stundum hlaup á þeirri braut og það er skemmtilegt frá að segja að þarna varð síðar íþróttaleikvangur Mosfellinga þar sem ég átti eftir að æfa og keppa mjög oft.“175 Fríða Rún átti glæsilegan hlaupaferil innan Aftureldingar og UMSK og á enn UMSK-met Jólakort sem Framfarafélag Mosfellinga (stofnað 1975) gaf út til styrktar fyrsta íþróttahúsinu á Varmársvæðinu sem er lengst til hægri á þessari mynd. Varmárlaug til vinstri, fjær eru Varmárskóli, Gagnfræðaskólinn í Mosfellssveit og lengst til hægri ber bæjarjólatréð við Esjuna í fjarska.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==