Aldarsaga UMSK 1922-2022

282 Þjálfari í 27 ár Hlynur Chadwick Guðmundsson (f. 1962) átti langan og farsælan þjálfaraferil hjá frjálsíþróttadeild Aftureldingar og var sæmdur gullmerki UMSK haustið 2021. Í þessu viðtali lítur hann yfir farinn frjálsíþróttaveg og var fyrst spurður að því hvenær hann fékk áhuga á íþróttum. Frá Ljósafossi til Laugarvatns Ég ólst upp í Grímsnesinu, segir Hlynur, og gekk í skóla á Ljósafossi, þar var eitt herbergið innréttað sem leikfimisalur, 10 x 7 metrar að stærð með parketgólfi og rimlum meðfram veggjum. Í skólanum hófust kynni mín af íþróttum, við lékum okkur mikið í handbolta og fótbolta en mér fannst þó meira gaman að leika mér í allskonar einstaklingsþrautum. Móðir mín kenndi mér sund í lauginni á Sólheimum, ég synti líka mikið í Ljósafosslaug og var stundum kallaður selurinn! Var ekkert íþróttahús í sveitinni? Nei, en við krakkarnir æfðum íþróttir í samkomuhúsinu á Borg, bæði körfubolta, fótbolta og frjálsar íþróttir, stundum fórum við í glímu og blak. Þarna var ágætt tún þar sem við stunduðum fótbolta og frjálsíþróttir. Ungmennafélagið í Grímsnesinu heitir Hvöt og ég keppti fyrir það í stökkum og hlaupum á vettvangi HSK. Fórst þú ekki í skóla á Laugarvatni? Jú, 14 ára fór ég í Héraðsskólann á Laugarvatni, þar var ég í heimavist og meðal annars í námi sem tengdist Íþróttakennaraskóla Íslands og tilraunasviði menntamálaráðuneytisins. Við vorum tíu krakkarnir á þessari braut, fimm stelpur og fimm strákar og vorum allan daginn í íþróttum, aðallega í frjálsíþróttum, körfubolta, blaki og sundi. Þetta tilraunanám varð síðar grunnurinn að íþróttasviðum í framhaldsskólum landsins. Besti völlurinn Hvenær og hvar hófst þjálfaraferill þinn, Hlynur? Ég byrjaði 16 ára að kenna sund og frjálsíþróttir á Sólheimum og fór oft með vistmenn á íþróttamót hér heima og erlendis. Um tvítugt flutti ég til Reykjavíkur og hóf að stjórna íþróttaæfingum í Bjarkarási og hjá Íþróttafélaginu Hlyni á Kópavogshæli sem var aðili að UMSK. Við hjónin bjuggum í Reykjavík til ársins 1992 og fluttum þá í Mosfellsbæinn og höfum búið þar síðan. Þá um haustið fór ég með dóttur mína á frjálsíþróttaæfingu hjá Aftureldingu, Alfa R. Jóhannsdóttir var þá nýhætt sem þjálfari en Einar Páll Kjærnested tók við af henni og ég leysti hann af á einni æfingunni. Þannig hófst þjálfaraferill minn hjá UMFA sem stóð yfir í 27 ár. Þegar ég byrjaði að þjálfa þar gegndi Lilja Petra Ásgeirsdóttir formennsku í frjálsíþróttadeildinni, mjög öflugur formaður. Hvernig var frjálsíþróttaaðstaðan á þessum tíma? Við æfðum í íþróttahúsinu á Varmá, gamli malarvöllurinn var þá enn til staðar, við vorum líka með ágætan kastvöll og síðast en ekki síst aðalvöllinn sem kom til sögunnar árið 1989. Hann var þá glæsilegasti frjálsíþróttavöllur landsins og sá fyrsti sem var hannaður gagngert sem frjálsíþróttavöllur. Halldór Lárusson var þar vallarstjóri og sá um allt viðhald á vellinum, allt fremsta frjálsíþróttafólkið á Reykjavíkursvæðinu sóttist eftir að æfa þar við aðstæður sem voru þær bestu á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Sjálfur var Halldór eða Diddi Lár., eins og hann var kallaður, sigursæll íþróttamaður innan Aftureldingar og UMSK á árum áður. Hann varð fyrsti landsliðsmaðurinn úr UMSK í frjálsum Hlynur Chadwick Guðmundsson bar lengi uppi frjálsíþróttastarfið innan Aftureldingar sem þjálfari, formaður og framkvæmdastjóri frjálsíþróttadeildar félagsins.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==