276 Frjálsar íþróttir innan UMSK 1963–2022 Stóri hatturinn Hér verður stiklað á stóru í sögu frjálsra íþrótta hjá UMSK og aðildarfélögum sambandsins á tímabilinu 1963–2022. Á því tímaskeiði urðu stórkostlegar framfarir á sviði frjálsra íþrótta og reyndar allra íþróttagreina um allt land, enda varð gjörbreyting á allri íþróttaaðstöðu og æfingar, þjálfun og keppni voru teknar miklu fastari tökum en áður hafði tíðkast. Saga frjálsra íþrótta á félagssvæði UMSK er í senn stór hluti af sögu héraðssambandsins og sögu einstakra aðildarfélaga. Æfingar fóru að miklu leyti fram á vettvangi félaganna en sambandið hélt héraðsmót, víðavangshlaup UMSK fyrir alla aldurshópa, tók þátt í bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) og á landsmótum UMFÍ var ævinlega keppt undir merkjum UMSK. Áður en lengra er haldið er rétt að skilgreina hvað leynist undir þeim stóra hatti sem kallaður er „frjálsar íþróttir“. Þar er um að ræða hlaup af ýmsum vegalengdum, kastgreinar, til dæmis kúluvarp, kringlukast og spjótkast, og loks stökkgreinar: Hástökk, langstökk, stangarstökk og þrístökk. Þar við bætist fimmtarþraut og tugþraut og reyndar fleiri greinar.146 Frjálsar íþróttir tengjast margar atferli daglegs lífs, til dæmis þurftu bændur og búalið oft að hlaupa á eftir skepnum. Þessar íþróttagreinar höfða jafnt til karla og kvenna og margar þeirra er hægt að iðka bæði innandyra og utan-. Fram yfir miðja 20. öld voru frjálsar íþróttir ein meginstoðin hjá ungmennafélögum á félagssvæði UMSK. Þar voru tvö rótgróin félög sérstaklega öflug eins og rakið er í fyrri hluta bókarinnar: Ungmennafélagið Afturelding í Mosfellssveit (stofnað árið 1909) og Ungmennafélagið Drengur í Kjós (stofnað árið 1915). Á 6. og 7. áratugnum fjaraði undan frjálsum íþróttum hjá hreppunum þremur í Kjósarsýslu: Mosfellshreppi, Kjalarneshreppi og Kjósarhreppi svo dauft var í sveitum á því sviði – um hríð. Hinum megin höfuðborgarinnar störfuðu ungmennafélög sem voru yngri í hettunni: Ungmennafélag Bessastaðahrepps (stofnað 1946), Breiðablik (stofnað 1950), Stjarnan (stofnuð 1960) og Grótta (stofnuð 1967). Á 7. áratugnum var lítið um skipulagðar æfingar í frjálsum íþróttum hjá Mosfellingum, Kjalnesingum og Kjósverjum, hjá Ungmennafélagi Bessastaðahrepps og Stjörnunni í Garðabæ voru haldnar æfingar án þjálfara en félögunum boðið að senda sitt efnilegasta fólk á æfingar í Kópavogi hjá Breiðabliki sem tók afgerandi forystu á sviði frjálsra íþrótta innan UMSK og átti drýgstan þátt í að gera héraðssambandið að stórveldi á því sviði kringum 1970. Til að átta sig á þessu skyndilega og mikla blómaskeiði hjá Breiðabliki er vert að skoða byggðaþróun á félagssvæði UMSK á 6. og 7. áratugnum. Í Mosfellshreppi bjuggu rúmlega 700 manns árið 1960 og á næstu tíu árum fjölgaði Mosfellingum einungis um 259 manns. Árið 1960 bjuggu rúmlega þúsund manns í Garðahreppi og innan við 200 manns í Bessastaðahreppi. Íbúafjöldinn á Kjalarnesi og í Kjós tók litlum breytingum. Á 7. áratugnum og fram á 8. áratuginn var langörasta mannfjölgunin í Kópavogi á félagssvæði UMSK. Á árabilinu 1960–1970 fjölgaði Kópavogsbúum úr rúmlega sex þúsund í rúmlega 11 þúsund manns, árið 1980 voru þeir tæplega 14 þúsund og 1990 rúmlega 16 þúsund.147 1. janúar 2022 bjuggu 38.998 manns í Kópavogi sem er næstfjölmennasta sveitarfélag á Íslandi.148 Á félagssvæði UMSK starfa nokkur fjölgreinafélög sem sinna mörgum íþróttagreinum, þó bjóða þau ekki öll upp á æfingar í frjálsum íþróttum. Ýmislegt getur valdið því að íþróttafélög sinna betur einni íþróttagrein Svonefndur grúfustíll var mikið notaður í hástökki þar til fosbury-stíllinn kom til sögunnar um 1970. Þessi skýringarmynd á grúfustökki er úr íslenskri kennslubók um frjálsar íþróttir sem kom út árið 1951.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==