248 Baðströnd og vindsængur UMSK lenti í 4. sæti í heildarstigakeppninni þar sem HSK sigraði með yfirburðum. Úlfar Ármannsson, sem þá var formaður UMSK, sagði í viðtali áratugum síðar: „Þetta landsmót stendur algerlega upp úr í minningunni, það tókst einstaklega vel og veðurguðirnir léku við sérhvern fingur.“106 Ungmennafélagsfrömuðurinn Pálmi Gíslason fór á sitt fyrsta landsmót á Laugarvatni, löngu síðar ritaði hann í UMSK-blaðið: „Nokkur lægð hafði þá verið í starfi sambandsins, en á þetta mót mætti harðsnúið lið íþróttamanna og er óhætt að segja að lið UMSK kom verulega á óvart. Þar upphófst hin mikla stemmning sem lengi fylgdi íþróttafólki UMSK, hvatningahróp svo mikil að áhangendur urðu mállausir í marga daga á eftir.“107 Vegna veðurblíðunnar og andans sem sveif þar yfir vötnum hefur Laugarvatnsmótið stundum verið nefnt Hitabylgjumótið eða jafnvel Litlu ólympíuleikarnir.108 Við vatnið myndaðist baðströnd og vindsængur voru sérstaklega vinsælar sem farkostir á vatninu. Mikið var drukkið af gosdrykkjum í sumarhitanum eða 144.000 flöskur og mótið skilaði ágætum hagnaði. Hinsvegar gekk ekki eins vel með pylsusöluna og varð mikill afgangur af pylsubirgðum sem ekki var hægt að skila. Þá kom sér vel að frystikistuöld var runnin upp á Íslandi og var gripið til þess ráðs að frysta birgðirnar sem dugðu fram yfir réttir og sláturtíð. Það þótti táknrænt að við mótsslit sáust þrír svanir fljúga yfir mótssvæðið og stefndu í austurátt. Þessir tignarlegu fuglar minntu í senn á merki mótsins og vísuðu veginn til næsta landsmóts sem haldið var á Eiðum á Fljótsdalshéraði þremur árum síðar. Tjaldbúðir UMSK. Þorstanum svalað í sumarhitanum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==