Aldarsaga UMSK 1922-2022

240 Þrátt fyrir mikinn fjölda gesta gekk umferðin vel, gripið var til þess ráðs að hafa einstefnu á ákveðnum vegum, meðal annars yfir Lyngdalsheiði. Ekki voru allir á einkabílum en rútukempan Ólafur Ketilsson annaðist linnulitlar sætaferðir á milli höfuðborgarinnar og Laugarvatns. Lúðrablástur og skrúðganga Dagskrá laugardagsins hófst með lúðrablæstri Lúðrasveitar Selfoss og skrúðgöngu sem Þorsteinn Einarsson stýrði en glímukappinn Ármann J. Lárusson úr Breiðabliki var fánaberi, hann varð einnig hinn öruggi sigurvegari í glímukeppninni, vann allar sínar viðureignir. Setningarathöfnin var jafnframt vígsluhátíð íþróttamannvirkjanna á staðnum, Árni Guðmundsson, skólastjóri Íþróttakennaraskóla Íslands, bauð gesti velkomna, Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra flutti ræðu og séra Eiríkur J. Eiríksson, formaður UMFÍ, setti mótið. Fáni UMFÍ, Hvítbláinn, var dreginn að húni og þjóðsöngurinn leikinn. Allt var til reiðu og keppnin hófst víða um mótssvæðið undir dyggri stjórn Þorsteins Einarssonar, íþróttafulltrúa ríkisins. Keppendur voru samtals 774 og mikill kynjahalli í þeirra röðum þar sem karlarnir voru helmingi fleiri en konurnar.99 Einmuna veðurblíða var alla mótsdagana, hitinn steig í 20 gráður á laugardeginum, þá voru 4–6 vindstig, en á sunnudeginum var logn og allt að 27 stiga hiti sem vermdi mótsgesti en þeir voru yfir 20 þúsund þegar mest var. Sólbruni herjaði á marga og jafnvel fengu sumir aðkenningu af sólsting. Skátar og læknar mótsins höfðu í nógu að snúast. Mannhaf í brekkunni, um 20 þúsund manns mættu á mótið í blíðskaparveðri. Þórður Guðmundsson átti glæsilegan hlaupaferil, með sigri sínum í 1500 m hlaupi á Laugarvatni varð hann fyrsti frjálsíþróttamaðurinn úr Breiðabliki sem vann gullverðlaun á landsmóti UMFÍ. Síðar á árinu var hann valinn í íslenska landsliðið sem keppti við Skota, tók þá þátt í 5000 m hlaupi og einnig í míluhlaupi þar sem hann setti UMFÍ-met. Eftir að Laugardalshöllin kom til sögunnar árið 1965 var hægt að keppa í lengri vegalegdum innandyra og árið 1968 varð Þórður Íslandsmeistari í 600 m og 1000 m hlaupi innanhúss. Árið 1969 sigraði hann í víðavangshlaupi ÍR, fyrstur Breiðabliksmanna, á hlaupaferli sínum setti hann mörg UMSK-met og var sæmdur gullmerki UMSK árið 2008.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==