Aldarsaga UMSK 1922-2022

236 Við Kléberg hafa risið skóla- og íþróttamannvirki, þar er íþróttasalur og sundlaug sem heitir Klébergslaug, hún er 16,7 x 8,5 m að stærð og 1,80 m að dýpt. Árið 1998 sameinaðist Kjalarneshreppur Reykjavík, Ungmennafélag Kjalnesinga gekk þá úr UMSK og varð aðili að Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR). Saltvík Áhugaverður þáttur í íþróttasögu Kjalarneshrepps er íþróttalíf á bújörðinni Saltvík kringum 1970. Þar var búskapur aflagður árið 1964, Reykjavíkurborg eignaðist jörðina og nýtti hana fyrir æskulýðsstarf, meðal annars voru haldnir dansleikir í heyhlöðunni og útbúin íþróttaaðstaða utanhúss. Sumarið 1969 æfðu ungmennafélagar af Kjalarnesi íþróttir í Saltvík og héraðshátíð og héraðsmót UMSK fór þar fram seint í júnímánuði. Staðarvalið átti að tengja betur saman félögin á sambandssvæðinu sem náði frá Hvalfjarðarbotni og út á Álftanes. Þarna var keppt í frjálsum íþróttum, handknattleik og knattspyrnu og segir um samkomuna í ársskýrslu: „Alls tóku yfir 100 manns þátt í íþróttakeppnum og yfir 500 manns sóttu hátíðina í allt. Um kvöldið var dansleikur í hlöðunni og lék hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar frá Selfossi fyrir dansi. Ungir sem gamlir skemmtu sér hið bezta og ekki sá vín á nokkrum manni.“92 Réttu ári síðar var héraðshátíð UMSK haldin aftur í Saltvík. Þar var keppt í handknattleik kvenna, lið UMSK laut í lægra haldi fyrir stúlkum úr Fram sem voru ríkjandi Íslandsmeistarar. Einnig var keppt í frjálsum íþróttum þar sem Trausti Sveinbjörnsson varð stigahæstur, hann sigraði í þremur greinum og hlaut að launum bikar sem Gestur Guðmundsson, formaður Breiðabliks, hafði gefið. Og síðan var slegið upp hlöðuballi: „Laugardagsdagsskránni lauk með unglingadansleik um kvöldið. Mikill fjöldi unglinga sótti dansleikinn og fór hann vel fram, svo löggæzlumenn höfðu lítið að starfa. Um miðnætti var eldur borinn að bálkesti er hlaðinn hafði verið í fjörunni neðan við bæinn. Þar hópaðist fólkið saman og skemmti sér við söng og gítarspil í bjarma eldsins.“93 Ekki varð framhald á mótshaldi á Saltvíkurtúnum og nú á dögum er erfitt að spretta þar úr spori um kargaþýfða móana. En áður en við segjum skilið við Saltvík er rétt að geta um mikla útihátíð sem haldin var þar um hvítasunnu árið 1971. Um það leyti óx íslenskri unglingamenningu fiskur um hrygg sem birtist meðal annars í óskipulögðum samkomum úti í guðsgrænni náttúrunni, til dæmis í Þórsmörk og Þjórsárdal með tilheyrandi gróðurspjöllum og ölvun. Æskulýðsráð Reykjavíkur hafði af þessu þungar áhyggjur, vildi stuðla að útihátíð með skipulagðri dagskrá, þar sem hægt væri að hafa hemil á hegðun æskulýðsins, og efndi til mikillar útihátíðar og tónlistarveislu í Saltvík í samvinnu við ungt tónlistarfólk. Allar helstu popphljómsveitir landsins mættu til leiks með hljómsveitina Trúbrot í fararbroddi. Samkoman var fjölsótt, um tíu þúsund manns streymdu í Saltvík en rigningarveður setti svip sinn á hátíðarbraginn. Ólíkt því sem hafði tíðkast á Saltvíkurmótum UMSK setti drykkjuslark svip sinn á samkomuna sem var stundum nefnd Saltstokk, nafnið vísaði til tónlistarhátíðarinnar í Woodstock í Bandaríkjunum sumarið 1969. Höfðu spaugarar á orði að í Saltvík hefði að þessu sinni verið keppt í girndahlaupi, glasalyftingum og örlagaglímu. Félagsgarður var vígður árið 1946, síðar kom til sögunnar lítill íþróttavöllur sem sést vel á þessari mynd. Mynd: Gunnar S. Óskarsson.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==