209 sig þangað, jafnhliða því að farið var reglubundið að æfa knattspyrnu undir merkjum Stjörnunnar. En margir gallar voru á gjöf Njarðar. Túnið var óslétt og hallaði auk þess bæði niður að Hafnarfjarðarveginum og líka að öðru markinu. Þarna þurfti því að spila „með halla eða móti halla“, eins og það var orðað.“33 Þessi orðanotkun „með halla“ og „móti halla“ varð til þess að kornungur knattspyrnumaður í Garðahreppi spurði foreldra sína: Hver er hann þessi Halli? Hvað áttu við, væni minn? Það er alltaf einhver Halli á fótboltavellinum en samt hef ég aldrei séð hann. Stundum er ég með honum í liði og stundum á móti honum, ég er alveg hættur að skilja þetta. Hallavöllurinn var fyrsti knattspyrnuvöllurinn í Garðahreppi og reyndar líka notaður sem handboltavöllur, ekki síst af stúlkum sem höfðu meiri áhuga á handknattleik en knattspyrnu.34 Þegar kom að knattspyrnumótum var völlurinn ekki talinn nothæfur og um skeið lék Stjarnan heimaleiki sína á Vallargerðisvelli í Kópavogi. Árið 1963 var uppi hugmynd um að Kópavogur, Garðahreppur og Hafnarfjörður byggðu sameiginlegan leikvang en ekkert varð úr þeim hugmyndum svo bið varð á því að löglegur og hallalaus knattspyrnuvöllur kæmi í Garðahreppinn. Forystumenn Stjörnunnar þreyttust ekki á að minna hreppsyfirvöld á vallarskortinn, ekki síst Ingvi Guðmundsson (1932–2011) sem var formaður Stjörnunnar um skeið. Hann sagði eitt sinn í viðtali „… að hreppsnefndarmenn hefðu verið svo þreyttir á suðinu í honum að þeir hefðu vikið úr vegi þegar þeir sáu til ferða hans“.35 Á meðan beðið var eftir nýjum velli var æft og keppt við frumstæðar aðstæður, Stjörnupiltar mættu til leiks á mótum, bæði á Reykjanesmót, UMSK-mót og Íslandsmót og meistaraflokkur karla tók fyrst þátt í móti á vegum KSÍ árið 1969 og hóf keppni í 3. deild árið 1970. Árið 1969 fékk Stjarnan svæði fyrir nýjan knattspyrnuvöll, skammt frá húsinu Sveinatungu. Nú þurfti margar hendur á loft til að vinna létt verk og fullklára vallarsvæðið. Ingvi Guðmundsson segir frá því: „Það mættu allmargir Stjörnumenn til þess að fylgjast með þegar grafan og tveir vörubílar mættu á staðinn. Vallarstæðið var gott og það þurfti lítið annað að gera en moka moldinni ofan af. Þau boð voru látin ganga út til unga fólksins í hreppnum að það ætti að mæta á staðinn með hrífur og helst hjólbörur. Ég held að það hafi tekist að smala saman flestum verkfærum börnum og unglingum í hreppnum sem tóku til óspilltra málanna við að hreinsa völlinn. Þegar því var lokið var sett rauðamöl og mold í völlinn og hann heflaður og valtaður. Þessum framkvæmdum lauk rétt áður en kom að því að við áttum fyrsta heimaleikinn á Íslandsmótinu.“36 Því er við að bæta að Ingvi smíðaði sjálfur vallarmörkin og fór létt með það, enda húsasmíðameistari að mennt. Marknetið fékk hann gefins í Hampiðjunni, völlurinn var til reiðu og markaði ákveðin tímamót í knattspyrnusögu Stjörnunnar. En Adam var ekki lengi í Paradís, fljótlega þurfti að taka hluta vallarins undir nýja skólabyggingu og á meðan nýr malarvöllur var útbúinn lék Stjarnan heimaleiki sína í Kópavogi.37 Pokalaugin – 1969 Garðhreppingum fjölgaði ört á 7. áratugnum, íbúafjöldinn nær þrefaldaðist á árabilinu 1960–1970.38 Ljóst var að full þörf var fyrir ný íþróttamannvirki, meðal annars sundlaug, bæði fyrir skólasund og almenning. Um skeið sóttu börn úr Garðahreppi skólasund í Hafnarfirði en síðan var gripið til þess ráðs að reisa 25 x 12 metra sundlaug sem byggðist á plastdúk sem strengdur var innan á trégrind. Laugin hafði verið notuð á landsmótum UMFÍ á árunum 1965 og 1968 en var síðan sett í geymslu. Í Garðahreppi var hún hituð upp með affallsvatni frá skólanum sem þá var kyntur með olíu. Sundlaugin var stundum kölluð Pokalaugin eða jafnvel Pokinn, hún var 0,90–1,50 m á dýpt og tekin í notkun 1. ágúst 1969. Laugin átti aðeins að vera til bráðabirgða en svo fór að hún var notuð í sveitarfélaginu í tvo áratugi.39 Fyrsta sundlaugin í Garðahreppi stóð við barnaskólann og var gerð úr plastdúk sem strengdur var innan á trégrind.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==