Aldarsaga UMSK 1922-2022

207 18 ára formaður Kristján Sveinbjörnsson þekkir íþróttasögu Álftaness vel, enda alinn þar upp, býr þar enn og starfaði drjúgt innan Ungmennafélags Bessastaðahrepps. Hann rifjaði upp fyrri tíma í viðtali árið 2018: „Í Bessastaðahreppi var stofnað lestrarfélag árið 1919 og síðan Málfundafélagið Þröstur árið 1939. Afi minn, Klemens Jónsson, var formaður málfundafélagsins og ekki allt of sáttur þegar því var breytt í Ungmennafélag Bessastaðahrepps árið 1946. Félagið keypti bíóbragga af hernum og hélt þar kvikmyndasýningar og böll sem voru aðallega fræg fyrir það að Reykvíkingar og Hafnfirðingar slógust þar af svo mikilli heift að húsgögnin skemmdust, enda gafst félagið upp á þessu dansleikjahaldi. En hvenær gekkst þú sjálfur í ungmennafélagið? Það var þegar ég var tólf ára gamall, árið 1970. Ég beið eftir þeirri stund, enda félagið þungamiðjan í félagslífinu á Álftanesi á þeim árum. Íbúar sveitarfélagsins voru einungis rúmlega 200, við vorum til dæmis aðeins sex krakkarnir í mínum árgangi í skólanum. Ég man að þegar ég var um tíu ára aldur fór ég í sumarbúðir sem UMSK starfrækti á Varmá í Mosfellssveit og var þar í viku. Hvernig var starfinu háttað hjá ungmennafélaginu á þessum tímum? Þetta var frekar tómstundastarf en strangar íþróttaæfingar. Þarna var til dæmis boðið upp á bridds, skák og félagsvist og Ólafur Oddsson frá Neðra-Hálsi í Kjós hélt félagsmálanámskeið, síðar kenndi ég sjálfur á slíkum námskeiðum. Einnig voru fótboltaæfingar 2–3 sinnum í viku á sumrin. En völlurinn var ófullburða, í raun og veru tún sem hreppurinn útvegaði eða öllu heldur var það oddvitinn sem lánaði okkur það. Ekki má gleyma áramótabrennunni og dansleiknum á gamlárskvöld sem félagið hafði nokkrar tekjur af. Við vorum alltaf að ýta við hreppsnefndinni að byggja félagsheimili, það voru uppi allskonar hugmyndir um það og loks var ráðist í byggingu íþróttahúss með hátíðarsal á fyrri hluta 9. áratugarins, um það leyti sem fjölga fór í hreppnum. Hvenær tókst þú sjálfur sæti í stjórn ungmennafélagsins? Ég varð gjaldkeri þegar ég var 16 ára og formaður þegar ég varð 18, ég tók við formennsku af jafnöldru minni, félaginu var stýrt af ungu fólki á þessum árum og félagsmenn voru fyrst og fremst ungt fólk, einungis 40–50 talsins. Og svo teiknaði ég merki ungmennafélagsins, 17 ára gamall. Varst þú ekki líka kvikmyndastjóri félagsins? Jú, við reyndum að lífga upp á félagslífið með bíómyndum, sýndum bæði skemmtimyndir og fræðslumyndir og vorum með bíósýningar fyrir börnin. Ég fór bæði í bandaríska og franska sendiráðið í Reykjavík til að fá 16 mm filmur og var stundum skammaður þegar ég skilaði myndunum seint. Við fengum einnig filmur á Fræðslumyndasafninu og hjá fyrirtækinu Filmum og vélum, ungmennafélagið átti þá 16 mm sýningarvél sem ég varðveiti núna. Núna eru breyttir tímar, félagið heitir Ungmennafélag Álftaness og er með öflugt íþróttastarf með margar deildir, þar er iðkaður körfubolti, knattspyrna, sund í samstarfi við Stjörnuna, blak og bardagaíþróttir. Knattspyrna og körfubolti eru öflugustu greinarnar og formaðurinn er ekki 18 ára!“32 Kristján Sveinbjörnsson varð ungur að árum formaður í Ungmennafélagi Bessastaðahrepps og síðar formaður UMSK. Þessi mynd af honum var tekin á landsmóti UMFÍ á Akureyri árið 1981.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==