Aldarsaga UMSK 1922-2022

189 félagsmanna í einstökum ungmennafélögum sem sögðu af ýmsu frásagnarverðu í þeirra heimabyggð. Loftur eyddi miklu rými í að harma hversu litlar heimildir væru finnanlegar um fyrstu ár UMSK og gafst þessvegna upp við að skrifa heillega sögu sambandsins. Hann tók í staðinn þann kost að helga ritið aðallega tildrögum að stofnun þess og hugsjónum ungmennafélaganna sem að því stóðu. Einnig var farið lauslega yfir söguna á nokkrum blaðsíðum í lokin. Þrátt fyrir þetta er nokkrar góðar heimildir að finna í ritinu, þökk sé greinum fimm hinna 20 meðhöfunda Lofts. Ein sú merkasta var eftir Steina Guðmundsson á Valdastöðum sem sagði frá stofnun Umf. Drengs. Flestar þessar greinar fjölluðu þó mest um daglegt atvinnulíf á sambandssvæðinu en lítið um sögu sambandsins. 40 ára afmælið Fleira vildu menn gera í sambandi við 40 ára afmælið en gefa út blað og á þinginu 1962 var samþykkt að stjórn myndi skipa nefnd sér til aðstoðar um framkvæmd afmælishátíðar af þessu tilefni. Gert var ráð fyrir að halda afmælisveislu í einu af félagsheimilunum á félagssvæðinu. En þessa nefndarskipun dagaði uppi og árið leið án þess að afmælisbarnið væri heiðrað á nokkurn hátt nema hvað afmælisritið kom út sem fyrr segir. Þegar leið að ársþingi 1963 sáu stjórnarmenn að við svo búið mátti ekki standa og ákváðu að bjarga í horn með því að halda afmælisveislu samhliða þinginu. Því var það að Páll Ólafsson, formaður UMSK, kvaddi sér hljóðs í hádeginu á þingi sambandsins, sem haldið var í Hlégarði 17. mars 1963 og tilkynnti þingfulltrúum að þeir væru boðnir í afmæliskaffi kl. þrjú um daginn ásamt nokkrum boðsgestum frá ÍSÍ og UMFÍ. Nokkrir höfðu þó haft pata af þessari fyrirhuguðu veislu og Haraldur Jónsson, formaður Ungmennafélagsins Drengs, stóð upp í hófinu og afhenti Páli gestabók með viðarspjöldum fagurlega útskornum með merki UMSK og ártölunum 1922 og 1962. Var hún þegar tekin í notkun. Þá stóð upp Gestur Guðmundsson, stjórnarmaður í Ungmennafélaginu Breiðabliki og færði sambandinu aðra gestabók. Eitthvað hafði þessi tímasetning ruglað Breiðabliksmenn í ríminu því á titilblaðinu var skrautritað ártalið 1963. Bókin var engu að síður þegin með þökkum og notuð sem gestabók ársþinganna næstu árin. Afmæliskaffið sóttu 35 manns og þar á meðal Gísli Halldórsson, forseti ÍSÍ og Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri. Einnig komu góðir gestir frá UMFÍ, Stefán Ólafur Jónsson stjórnarmaður og Skúli Þorsteinsson framkvæmdastjóri. Margar ræður voru haldnar og tíminn flaug hratt við húrrahróp og lófaklapp. Tæpum fjórum tímum síðar var þingstörfum fram haldið og þá var þessu síðbúna afmælishófi lokið.162 Gestabókin frá Dreng var fagurlega útskorin. Gestur Guðmundsson afhenti gestabók frá Breiðabliki í 40 ára afmælishófinu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==