Aldarsaga UMSK 1922-2022

179 Fjörtíu skákáhugamenn mættu með töfl sín og tókust á við meistarann á hvítum reitum og svörtum. Úrslit urðu þau að Friðrik vann 31 skák, tapaði þremur og gerði sex jafntefli. Skákmót sambandsins var háð um veturinn og hófst það í Félagsgarði. Þrjú félög tóku þátt í því og úrslitin urðu þau að sveit Umf. Breiðabliks vann með 6 vinningum, Drengir fengu 3,5 vinninga og skákmenn Aftureldingar 2,5. Á skákmóti UMSK árið 1958 var keppt bæði í yngri og eldri flokkum. Nú hafði fækkað í hópnum því aðeins tvö félög sendu sveitir í eldri flokk, Breiðablik og Drengur. Þar sigraði Breiðablik 5:3. Drengir bættu hlut sinn með því að vinna yngri flokkinn með 7,5 vinningum. Breiðablik náði 5,5 vinningum en Umf. Kjalnesinga rak lestina með tvo vinninga. Talsvert var teflt innan UMSK á næstu árum, einkum hjá Umf. Breiðabliki í Kópavogi sem eignaðist sterka skáksveit og þar voru haldin innanfélagsmót. Þar fór þó sem víðar að stofnað var taflfélag sem tók að sér þennan þátt mála og þar með duttu Kópvægingar út úr skákkeppnum UMSK. Héraðsmót voru haldin fram til 1962 en óljóst er hvort framhald varð á þeim eftir það því heimildir finnast ekki þar um. Líklegast er þó að skákin hafi aðeins átt þennan skammvinna samastað á héraðsmótum UMSK. Skák og mát. Briddsið byrjar Kjósarmenn voru löngum miklir briddsspilarar og sagnir herma að á sjötta áratugnum hafi þeir farið að keppa við nágranna sína á Kjalarnesi í þessu skemmtilega spili. Veturinn 1957 kepptu ekki færri en þrjár sveitir frá hvorum í þessum árlegu einvígjum og unnu Kjósverjar í tveimur sveitum en Kjalnesingar einni. Ekki voru það allt ungmennafélagar sem undu sér við græna borðið en fljótlega kom upp áhugi á því að halda slíkar keppnir innan vébanda UMSK. Fyrsta héraðsmótið í bridds fór svo fram á útmánuðum 1957 á vegum Umf. Kjalnesinga. Þar leiddu saman hesta sína Ungmennafélög Kjalnesinga Kjalarnesi, Drengur í Kjós, Afturelding í Mosfellssveit og Breiðablik í Kópavogi. Þeirri keppni lauk þannig að Umf. Kjalnesinga vann með fimm stigum, Drengur hlaut fjögur stig, Afturelding tvö og Breiðablik eitt.145 Svo var haldið áfram og næsta briddsmót fór fram í Kópavogi árið 1958. Keppnin var hnífjöfn en Afturelding sigraði eftir bráðabana á móti Dreng. Breiðablik varð í þriðja sæti en Kjalnesingar fjórðu. Þarna var Afturelding á toppnum en í hinni skammæju briddssögu UMSK voru það helst ungmennafélögin Breiðablik og Drengur sem tókust á um sigrana.146 Briddsdeild var stofnuð innan Breiðabliks árið 1960 og spilað vikulega á veturna. Fyrsta tvímenningskeppni í bridds var haldin innan UMSK 1960. Spilað var þrívegis með viku millibili. Eftir tvö fyrstu kvöldin voru Drengir með 60 stiga forystu yfir Breiðablik sem var í öðru sæti. Frá þessu segir í 30 ára afmælisriti Breiðabliks: Drengirnir voru kampakátir að vonum en Blikarnir voru ákveðnir að velgja þeim undir uggum eins og kostur væri. Það fór svo að lokum að Blikunum tókst það heldur betur því að þegar upp var staðið hafði Breiðablikssveitinni tekist að vinna upp þennan 60 stiga mun og gott betur því að á þessu eina kvöldi fékk Breiðablik 120 stigum meira en Drengirnir úr Kjósinni.147 Þátttakendur í fjölteflinu gegn Taimanov árið 1956. Hákon Þorkelsson frá Valdastöðum í Kjós var lengi einn af bestu briddsspilurum innan UMSK og keppti á mörgum héraðsmótum sambandsins. Ármann J. Lárusson var árum saman afar sigursæll briddsspilari og keppti mikið fyrir Breiðablik og UMSK.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==