172 Ekki kom til þess að boðið yrði þegið því engir sýndu lit á því að reyna sig við Mosfellinga. Líklega hafa þeir frétt af tröllkörlunum í Mosfellssveit og ekki litist á blikuna. Segja má að Aftureldingarmenn hafi verið langt á undan sinni samtíð því það var ekki fyrr en hálfri öld síðar sem karlar fóru að keppa í handbolta á landsmótunum. Handboltakapparnir létu þetta ekki á sig fá og árið 1950 tók lið Aftureldingar þátt í Íslandsmótinu í fyrsta skipti og lenti þar í fjórða sæti af átta liðum. Markahlutfallið var 120:120. Hin liðin voru öll gamalgróin handknattleiksfélög svo þetta var nokkuð vel af sér vikið. Mosfellingar unnu FH-inga, KR-inga, Víkinga og Ármenninga en töpuðu fyrir ÍR-ingum, Valsmönnum og Frömurum sem urðu Íslandsmeistarar. Um sumarið kepptu kapparnir við landslið Finnlands á Tungubökkum og töpuðu ekki nema 10:6. „Dvergarnir sjö“ vöktu talsverða athygli í handboltaheiminum og þeir voru vinsælir hjá áhorfendum. „Við áttum alltaf alla áhorfendur á Hálogalandi nema bara það lið sem við vorum að spila við í það skiptið.“ sagði Tómas Lárusson. Vinsældirnar voru vegna mikillar leikgleði fremur en afburða tækni enda boltameðferðin ekki alltaf upp á það besta. En fá lið stóðu þeim framar í líkamlegum styrk og stundum var nóg fyrir jötnana að gretta sig framan í andstæðingana þá viku þeir sér undan! Jón á Reykjum var vítaskytta liðsins öll árin og skoraði úr hverju vítakasti. Hann var svo illúðlegur þegar hann stóð á vítalínunni að sagt var að enginn markvörður hafi vogað sér að verja frá honum! Tómas Lárusson, einn af dvergunum sjö, orðaði það þannig: Þegar Jón á Reykjum tók stroffí þá stóðu bara allir áhorfendur upp og fylgdust með af áhuga. Af því að hann var lengi að gera sig til og gretti sig þessi lifandis ósköp og ranghvolfdi augunum. Hann skoraði alltaf úr öllum vítaköstum. Markmennirnir vissu ekkert hvað þeir hétu þegar hann var að skjóta. Þetta var nú ekki árennileg vörn sem við höfðum. Þeir voru þarna þvílík tröll, Þórður, Ásbjörn og Jón. Þetta voru nú engir smákarlar. Þetta var gaman.135 Hálogaland var í eigu Íþróttabandalags Reykjavíkur og sumum forsvarsmönnum íþróttafélaga í Reykjavík mislíkaði að utanbæjarfélag eins og Afturelding fengi að æfa þar. En þegar átti að bola þeim þaðan út stóð Sigurgeir Guðmannsson, framkvæmdastjóri ÍBR, þétt með Mosfellingum. Hann sagði að það kæmi ekki til greina að vísa þeim frá því Afturelding væri eina félagið sem alltaf hefði staðið í skilum. „Ég var gjaldkeri félagsins og passaði vel upp á þetta. Við nutum þess.“ sagði Tómas Lárusson. „Í staðinn voru það FH-ingar sem fengu að fjúka en ekki við.“136 Handboltafólk Aftureldingar á æfingu í Hálogalandi árið 1949. Sitjandi: Rúnar Ólafsson, Freyja Norðdahl, Ingunn Finnbogadóttir, Skúli Skarphéðinsson, Gerður Lárusdóttir, Halldór Sigurðsson, Valgerður Guðmundsdóttir og Hreinn Ólafsson. Standandi: Janus Eiríksson, Einar Jónsson, Gunnar Bjarnason, Sveinn Guðmundsson, Árni Reynir Hálfdánarson, Þórður Guðmundsson, Jón M. Guðmundsson, Ásbjörn Sigurjónsson, Guðjón Hjartarson, Tómas Lárusson, Magnús Lárusson og Jón Þórarinsson þjálfari.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==