Aldarsaga UMSK 1922-2022

171 Haustið 1960 tók Frímann Gunnlaugsson við þjálfun hópsins og þá var íþróttahús við Kópavogsskóla tekið í notkun. Á útmánuðum 1961 tóku stúlkurnar þátt í Íslandsmótinu í 2. flokki með ágætum árangri. Til gamans má geta þess að í þessu fyrsta opinbera móti vann Breiðablik Val með 10 mörkum gegn einu. Það kom í hlut Breiðabliks að senda lið fyrir hönd UMSK á landsmótið á Laugum í Þingeyjarsýslu 1961. Tíu stúlkur úr Kópavogi mynduðu lið UMSK og nokkrar þeirra voru líka með í frjálsíþróttum. Undankeppni var í handboltanum og þar mætti UMSK liði Keflavíkur og vann það með átta mörkum gegn sex. Litlu munaði því þetta var útsláttarkeppni en stúlkurnar komust í gegnum þann flöskuháls. Þegar til Lauga var komið héldu þær uppteknum hætti og sigruðu hvert liðið á fætur öðru. Reyndar voru liðin í úrslitakeppninni ekki nema þrjú, UMSK, HSÞ og UMSB. Borgfirðingar voru burstaðir með 8:2 og Þingeyingar fengu litlu betri útreið, 6:2. UMSK sigraði með yfirburðum og markatölunni 14:4 og hafði þar með sigrað í handboltanum á fjórum landsmótum í röð.131 Stúlkurnar voru ekki fyrr komnar frá Laugum en Íslandsmót í handknattleik utanhúss hófst og þar höfnuðu þær í þriðja sæti. Svo háðu þær bæjarkeppni við Hafnarfjörð í 2. flokki og sigruðu í öllum fjórum leikjum þeirrar keppni. Um haustið fóru þær til Sauðárkróks og léku tvo leiki við lið Skagfirðinga. Stúlkurnar voru orðnar býsna keppnisvanar þegar hér var komið sögu og næsta vetur þjálfaði Frímann Gunnlaugsson svo til alla flokka karla og kvenna í handbolta hjá Breiðabliki. Lið Breiðabliks braut svo ísinn og skráði sig til keppni í annarri deild Íslandsmótsins árið 1962. Liðin voru þrjú og andstæðingar Breiðabliksstúlkna voru Íþróttabandalag Keflavíkur og Þróttur. Keflavík og Þróttur gerðu jafntefli sín á milli en Breiðablik vann báða leiki sína og þar með deildina. Félagið varð því Íslandsmeistari og vann sér keppnisrétt í fyrstu deild. Ekki nóg með það heldur tókst 2. flokki að komast í úrslitaleik gegn Ármanni í Íslandsmótinu utanhúss sem Breiðablik sá um. Leikurinn var æsispennandi en Breiðablik sigraði 8:7 eftir tvíframlengdan leik og varð Íslandsmeistari. Meistaraflokkur náði þriðja sæti í mótinu. Þannig stóð handbolti kvenna innan UMSK á fjörutíu ára afmæli sambandsins.132 Dvergarnir sjö í Mosfellssveit Framan af var litið á handboltann sem kvennaíþrótt en drengirnir í Mosó gáfu handboltastúlkunum auga og áttuðu sig á að þetta var mjög ákjósanleg íþrótt til að stunda innanhúss á vetrum. Þegar stúlkurnar í Aftureldingu höfðu stundað handboltann í nokkur missiri létu strákarnir til skarar skríða og fóru líka að æfa. Í reitnum fyrir íþróttaiðkun mátti lesa eftirfarandi í skýrslu Aftureldingar árið 1948: Reglulegar æfingar í frjálsum íþróttum allt sumarið fyrir karla og handknattleik fyrir kvenfólkið. Um haustið voru teknar upp æfingar í handknattleik að Hálogalandi fyrir bæði kynin.133 Hálogaland var stóreflis braggi sem stóð þar sem nú eru gatnamót Gnoðarvogar og Skeiðarvogs í Reykjavík. Þangað sóttu Mosfellingar æfingar á vetrum en á sumrin æfðu þeir á grasvöllum í sveitinni, ýmist við Brúarland, Tjaldanes eða á Tungubökkum. Handknattleikslið Aftureldingar í karlaflokki gekk oft undir nafninu „Dvergarnir sjö“ sem var hreinasta öfugmæli því leikmennirnir voru flestir fremur hávaxnir og sumir þeirra hreinustu risar að vexti eins og bræðurnir á Reykjum, Jón M. og Þórður Guðmundssynir og Ásbjörn Sigurjónsson á Álafossi. Dverganafnið festist við þá en lítið fréttist af Mjallhvíti! Þeir tóku ástfóstri við handboltann og vorið 1949 datt þeim í hug að koma á karlakeppni eða sýningu í íþróttinni á landsmótum UMFÍ. Þeir létu slag standa og sendu bréf í nafni UMSK til stjórnar UMFÍ.134 Bréf stjórnar UMSK til stjórnar UMFÍ þar sem þeir bjóða fram handknattleikslið til keppni á landsmóti sambandsins sumarið 1949.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==