Aldarsaga UMSK 1922-2022

17 íþróttagreinum og tók þátt í landsmótum UMFÍ sem voru ævinlega hápunktur félagsstarfsins. En smám saman urðu stærstu aðildarfélögin að öflugum fjölgreinafélögum, hlutverk UMSK breyttist frá því að vera miðlægt samband á stóru svæði í að vera stuðningsaðili og ráðgjafi fyrir aðildarfélögin. Sá stuðningur birtist meðal annars í fjárstyrkjum en eftir að getraunir og lottó skutu rótum á Íslandi hefur fjárhagslegt umhverfi íþróttahreyfingarinnar gjörbreyst. Við ritun á langri og merkri sögu UMSK hafa margar og fjölbreyttar heimildir verið nýttar, meðal annars tóku undirritaður og Vilborg Bjarkadóttir viðtöl við fólk sem mundi tímana tvenna, þar á meðal voru fyrrverandi formenn sambandsins. Á síðustu misserum hafa fimm fyrrverandi formenn UMSK fallið frá og vil ég minnast þessara horfnu leiðtoga hér og nú. Þeir eru: Hraunar Daníelsson sem lést árið 2022 og Ólína Sveinsdóttir, Ólafur Oddsson, Sigurður Skarphéðinsson og Jón Ármann Héðinsson sem létust árið 2023. Við söguritunina hafði ég mörg útispjót; viðtöl við fólk sem stóð í stafni starfseminnar voru ómetanlegar heimildir, ársskýrslur UMSK og einstakra aðildarfélaga reyndust einnig notadrjúgar, sagnfræðirit, dagblöð og tímarit, þar á meðal Skinfaxi, blað UMFÍ, komu að góðum notum, einnig má nefna áhugaverða kvikmynd um sögu knattspyrnuiðkunar í Kópavogi. Árið 2019 tók ritnefnd bókarinnar til starfa, í henni sátu: Valdimar Leó Friðriksson formaður, Alda Helgadóttir, Birgir Ari Hilmarsson og Magnús Jakobsson. Við verklok vil ég þakka ritnefnd kærlega fyrir samstarfið; einnig þakka ég nánustu samstarfsmönnum mínum við vinnslu verksins, þeir eru Eyjólfur Jónsson umbrotsmaður, Magnús B. Óskarsson, ljósmyndari og kápuhönnuður, Embla Ýr Bárudóttir prófarkalesari, Ýr Þórðardóttir, sem vann nafnaskrána ásamt mér, og starfsmenn í Svansprenti í Kópavogi sem prentuðu verkið. Þegar UMSK var stofnað árið 1922 var íslenskt samfélag harla ólíkt því sem blasir við okkur nú á dögum. Þjóðin var þá að hverfa frá kyrrstæðu og íhaldssömu sveitasamfélagi inn á braut félagslegrar vakningar og tæknilegra nýjunga; á þessu framfaraskeiði skipaði ungmennafélagshreyfingin veglegan sess. Mig langar að ljúka formála mínum á því að nefna til sögunnar ungmennafélaga sem lifði lungann úr 20. öld og tók ásamt sinni kynslóð þátt í að móta mestu breytingatíma Íslandssögunnar. Þetta var Grímur Norðdahl á Úlfarsfelli í Mosfellssveit sem var fæddur árið 1909, sama árið og Ungmennafélagið Afturelding var stofnað. Grímur var formaður Aftureldingar um skeið og ásamt Ragnheiði Guðjónsdóttur eiginkonu sinni var hann meðal frumbyggja í Kópavogi um miðbik síðustu aldar. Þau hjónin og aðrir landnemar í Kópavogi vildu bindast samtökum og stofna ungmennafélag, Grímur var kallaður til verka og kjörinn fyrsti formaður félagsins og Ragnheiður bætti um betur og lagði fram hugmyndina að félagsnafninu: Breiðablik skyldi barnið heita, það er núna meðal stærstu íþróttafélaga landsins. Grímur Norðdahl lést árið 1997, hann var alla sína ævi ungmennafélagi af lífi og sál og orti eitt sinn þessa stöku um Ungmennafélag Íslands: Framtíð Íslands er fögur, friðsæl, björt og hlý. Eitt af þeim orsakavöldum er starfsemi UMFÍ. 22. október 2023. Bjarki Bjarnason. Bjarki Bjarnason, höfundur Aldarspegils UMSK og sögu UMSK 1963–2022. Bjarki ritstýrði einnig öllu verkinu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==