Aldarsaga UMSK 1922-2022

165 en þess gamla. Félagið stofnaði sérstakan sjóð í þessu skyni og var stofnfé hans 20 þúsund krónur. Félagið seldi aðstöðu sína í Tjaldanesi og einnig samkomubragga sem það átti á svokölluðum Ásum til að leggja í sjóðinn.119 Framkvæmdir hófust sumarið 1949 og gengu prýðilega fyrir sig. Framkvæmdastjóri verksins var oddviti sveitarinnar, Magnús Sveinsson. Næsta vor var húsið fokhelt. Svo var haldið áfram í striklotu og þetta mikla og glæsilega hús var vígt 17. mars 1951 og gefið nafnið Hlégarður. Gísli Halldórsson arkitekt teiknaði húsið sem var 608 fermetrar að flatarmáli. Það var myndað af tveimur hliðstæðum álmum með millibyggingu. Í vesturálmunni var allstór salur sem rúmaði 230 manns í sæti. Við norðurenda hans var ágætt leiksvið en suðurendann kvikmyndasýningarklefi. Svo var þarna húsvarðaríbúð, búningsherbergi og böð því auðvitað var Hlégarður líka íþróttahús. Á efri hæð voru fundarherbergi, fjögur félagsherbergi og rými fyrir bókasafn. Nýreist kostaði húsið 1,3 milljónir króna sem skiptust þannig að sveitarsjóður lagði fram 745 þúsund, Félagsheimilasjóður 520 þúsund, Afturelding 23 þúsund og kvenfélagið 12 þúsund.120 Vígsluhátíðin var bæði fjölmenn og fjörleg því öllum Mosfellingum var boðið til veislunnar. Magnús oddviti sagði sögu byggingarinnar og Hálfdán Helgason prófastur vígði húsið. Þá töluðu Halldór Laxness rithöfundur, Bjarni Ásgeirsson alþingismaður og Guðmundur Í. Guðmundsson sýslumaður og svo létu margir ljós sitt skína í frjálsum ræðuhöldum. Þá var kórsöngur, fánavígsla og ávarp fjallkonunnar. Að lokum var dansað fram undir morgun. Niðurlag fréttar Skinfaxa var á þessa leið: Um 400–500 manns sóttu fagnað þennan og var veitt af mikilli rausn. Húsið er langglæsilegasta samkomuhús, sem enn hefur verið byggt í sveit á Íslandi. Það er rúmgott, þægilega innréttað, og frágangur allur sérlega vandaður. Þessi dagur var eftirminnilegur hátíðis- og fagnaðardagur Mosfellinga. Hlégarður verður vafalaust gróðrarreitur göfugra hugsjóna, góðs og þroskamikils félagslífs.121 Mosfellingar hugðust girða fyrir alla lausung í Hlégarði og settu strax í upphafi strangar reglur um dansleikjahald. Þar var kveðið á um að húsinu skyldi lokað kl. 11.30, ekki skyldi fleirum hleypt inn í húsið en það rúmaði við borð og síðast en ekki síst var samþykkt áfengisbann í húsinu og skyldi ölvuðum mönnum óheimill aðgangur. Þá skyldi löggæsla höfð á almennum dansleikjum til að fylgja þessu eftir. Allt var þetta gert í góðri meiningu en þrautin var þyngri að fylgja reglunum eftir. Mun það mála sannast að alloft hafi ölvaðir menn sést innan dyra í Hlégarði Prúðbúnir veislugestir við vígslu Hlégarðs 1951.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==