Aldarsaga UMSK 1922-2022

162 aði fé. Hún efndi tvívegis til happdrætta sem skiluðu talsverðum ágóða. Markmið hennar var að safna svo hárri upphæð áður en hafist væri handa að tryggt væri að verkið myndi ekki stranda í miðjum klíðum. Það tókst henni með glæsibrag. Rætt var við hreppsnefndina um samstarf við að byggja sameiginlegt samkomu- og skólahús en þeir samningar tókust ekki. Árið 1943 tókst nefndinni að tvöfalda sjóði sína og fljótlega upp úr því var ákveðið að hefjast handa við byggingu samkomuhúss. Land undir húsið í landi Laxárness rétt sunnan við ósa Laxár í Kjós gáfu þeir Eggert Kristjánsson stórkaupmaður og Egill Vilhjálmsson bílasali. Þar var einnig gert ráð fyrir íþróttavelli. Ekki var leitað langt yfir skammt við hönnun hússins því Karl Andrésson á Neðra-Hálsi teiknaði húsið og sá um byggingu þess ásamt Brynjólfi Guðmundssyni frá Miðdal. Framkvæmdir hófust vorið 1945 og gengu svo hratt og vel fyrir sig að húsið var vígt nákvæmlega einu ári og þremur dögum síðar. Bæði hreppur og kvenfélag gáfu rausnarlegar peningagjafir til hússins, tíu þúsund krónur hvort og fimmtán þúsund fengust í styrk úr íþróttasjóði. Nefndarmenn söfnuðu fé með útgáfu 60 skuldabréfa að upphæð 1000 krónur hvert. En útslagið gerði hin mikla þátttaka félagsfólks og sveitunga í Kjósinni í sjálfboðavinnu og peningagjöfum til hússins. Sjálfboðavinnan nam hátt í sex ársverkum og munaði aldeilis um minna. Húsið var vígt sunnudaginn 23. júní 1946 og gefið nafnið Félagsgarður. Það var fyrsta félagsheimili á Íslandi sem fékk styrk úr Félagsheimilasjóði. Reyndar kom sjóðurinn ekki til sögunnar fyrr en árið 1948 en var gerður afturvirkur í tilviki Félagsgarðs. Félagsgarður er 260 fermetrar að grunnfleti og hið glæsilegasta hús. Vígsluárið var það metið 250 þúsund króna virði sem var ekki langt frá 18 árslaunum verkamanns. Það var reist af miklum samtakamætti félaga í Ungmennafélaginu Dreng sem þarna fengu hinn ákjósanlegasta vettvang fyrir sitt félagsstarf. Hreppurinn og kvenfélagið fengu að halda sína fundi í Félagsgarði en húsið var algjörlega í eigu Ungmennafélagsins Drengs sem þarna lyfti sannkölluðu grettistaki.114 „Flóðöldur brennivíns og tóbaks“ Skuldbinding í lögum UMFÍ um að hafna neyslu áfengra drykkja var afnumin á þingi þess árið 1933. Eftir sem áður höfðu mörg ungmennafélög bindindisákvæði í lögum sínum og margir ungmennafélagar fylgdu þeim trúlega. En svo voru aðrir sem vildu gjarnan ráða því hvort þeir tækju vasapelann með sér á skemmtanir, hvort sem það voru skemmtanir á vegum ungmennafélagsins eða annarra. Um þetta gat orðið nokkur togstreita. Forystumenn UMSK um miðja öldina voru eindregnir bindindismenn og börðust gegn drykkju brennivíns í ræðu jafnt sem riti. Á stríðsárunum 1940–1945 var hernám Íslands í algleymingi og þá flæddu vín og sígarettur hömlulítið frá ameríska hernum til landsmanna. Þetta var mörgum forystumönnum ungmennafélaganna þyrnir í augum og þeir sátu ekki þegjandi hjá. Á þingi Vígsludagur Félagsgarðs 23. júní 1946. Íslenski fáninn blaktir við hún, langferðabílar og herjeppar setja svip sinn á bílastæðið.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==