Aldarsaga UMSK 1922-2022

16 knattspyrnan var farin að skjóta rótum innan UMSK þegar þessu tímabili lauk um 1962. Þá höfðu safnast svo að mér verkefni sem ég þurfti að vinna að ég sá mér ekki fært að halda áfram með söguna og bað um að fenginn yrði annar höfundur til að ljúka verkinu. Rættist vel úr þessu þegar hinn ágæti fræðimaður Bjarki Bjarnason tók það að sér. Það var afar skemmtilegt og lærdómsríkt að fá að segja frá þessum fyrstu fjórum áratugum í sögu Ungmennasambands Kjalarnesþings. Forystumönnum þess þakka ég gott samstarf og óska þeim til hamingju með aldarafmælið og söguna. Á haustmánuði 2023. Jón M. Ívarsson. Saga UMSK 1963–2022 Líkt og Jón M. Ívarsson rekur hér að framan eru höfundar bókarinnar tveir, hvor með sinn hluta verksins. Árið 2015 lauk Jón ritun sinni um 40 fyrstu árin í sögu UMSK, ég kom að verkinu árið 2018 og ritaði um árabilið 1963–2022. Auk þess setti ég saman aldarspegil UMSK fremst í bókinni og ritstýrði verkinu allt til útgáfudags. Á tímaskeiðinu 1963–2022 urðu gífurlegar breytingar í íslensku samfélagi, mikil þéttbýlismyndun varð á félagssvæði UMSK, hreppsfélög breyttust í bæjarfélög og margfölduðu íbúafjölda sinn. Íþróttalífið tók einnig miklum stakkaskiptum, nýjar greinar komu til sögunnar, félög líkt og Afturelding, Breiðablik og Stjarnan urðu deildaskipt og sinntu mörgum íþróttagreinum á meðan önnur einbeittu sér að einni grein, til dæmis lyftingum, golfi eða dansi. Er skemmst frá því að segja að á síðustu 60 árum hefur fjöldi aðildarfélaga UMSK tífaldast, þau voru fimm árið 1963 en um 50 talsins þegar sambandið fagnaði aldarafmæli sínu. Æfinga- og keppnisaðstaðan, bæði innan- og utandyra, hefur einnig gjörbreyst. Árið 1963 voru fyrst og fremst vanburða boltavellir á félagssvæðinu, engin nútímaleg íþróttahús til staðar en notast við leikfimisali í skólum og jafnvel félagsheimili til íþróttaiðkunar. Síðan rann upp mikið framfaraskeið, löglegir íþróttavellir og fullburða íþróttahús spruttu upp í stærstu sveitarfélögunum og sköpuðu aðstæður og umgjörð fyrir fjölbreytt íþróttalíf sem hentaði öllum aldurs- og getuhópum. Þessar breytingar urðu svo stórkostlegar að í mínum huga ganga þær undir nafninu „Valla- og hallabyltingin mikla“. Fremst í mínum hluta bókarinnar geri ég rækilega grein fyrir þessum stórfelldu breytingum sem voru nauðsynleg forsenda fyrir það fjölbreytta íþróttalíf sem blasir við okkur á félagssvæði UMSK nú á dögum. Ör þróun íslensks samfélags og fjölskrúðugt íþróttastarf urðu til þess að nokkrar viðamiklar sögur eru sagðar jafnhliða í mínum hluta bókarinnar, þær eru: saga sambandsins, saga aðildarfélaga UMSK, saga einstakra íþróttagreina og saga landsmóta UMFÍ. Margar íþróttagreinar voru á sínum tíma nýlunda innan sambandsins og reyndar á landinu öllu, til dæmis blak, golf og karate, meðal annars af þeim sökum legg ég áherslu á að setja allar íþróttagreinar sem ég fjalla um í alþjóðlegt samhengi í skrifum mínum. Síðustu áratugina hafa verkefni UMSK tekið miklum stakkaskiptum. Áður fyrr var sambandið sýnilegra og liðsmenn UMSK klæddust iðulega keppnisbúningi sambandsins. Það gaf út fréttabréf og afmælisrit, var með þjálfara á sínum snærum, hélt héraðsmót í einstökum

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==