Aldarsaga UMSK 1922-2022

157 3000 metra hlaupi. Afturelding hélt uppteknum hætti og vann mótið með 44 stigum. Drengur hlaut 24 og Umf. Kjalnesinga tvö.105 Þrítugasta og fjórða mótið átti sér stað á Tungubökkum í Mosfellssveit sunnudaginn 5. september 1954. Tómas Lárusson var sigursæll og vann þrjár greinar en að öðru leyti fór flest á líkan veg og fyrri ár. Afturelding hlaut helmingi fleiri stig en Drengur eða 40 á móti 20. Um kvöldið var samkoma að Hlégarði þar sem Malvin Whitfield, heimsfrægur bandarískur hlaupari, flutti fyrirlestur um íþróttir og sýndi kennslukvikmyndir um vaxtarrækt. Var gerður góður rómur að máli hans en Jón M. Guðmundsson á Reykjum þýddi ræðu Whitfields fyrir samkomugesti.106 Mótið féll niður Kjósarárið 1955 en var svo haldið árið eftir. Þrítugasta og fimmta mótið var haldið á Tungubökkum sumarið 1956. Einu heimildirnar fyrir því er að finna í ársskýrslum félaganna tveggja til UMFÍ. Þar stendur að mótið hafi farið fram en úrslitin er ekki að finna í bókinni góðu og þau hafa hvergi fundist skráð. Þetta var í samræmi við minnkandi áhuga félaganna tveggja á frjálsíþróttum um þetta leyti. Hinir eldri garpar lögðu skóna á hilluna eða sneru sér að öðrum íþróttum og þeir yngri létu merkið niður falla. Ekki urðu konurnar til að halda lífi í mótunum því þær fengu aldrei aðgang að þeim nema sem áhorfendur. Segja má að þar hafi íhaldssemi stjórnendanna orðið þeim að falli.107 Þrítugasta og sjötta og síðasta mótið var haldið við Félagsgarð 8. september 1957 í ágætis veðri. Þar brá svo við að Drengsmenn af yngri kynslóð sneru bökum saman og sigruðu í mótinu. Þeirra helsti afreksmaður var Ólafur Ingvarsson sem vann spjótkast og varð annar í 100 metra hlaupi og kúluvarpi og hlaut fyrir það 10 stig. Ólafur Þór Ólafsson hlaut 8 stig fyrir að ná öðru sæti í hástökki og langstökki og því þriðja í 100 metra hlaupi en Steinar bróðir hans vann kúluvarpið. Nú voru fáir eftir hinna fornu kappa Aftureldingar. Reykjabræður voru horfnir á braut og Ásbjörn á Álafossi farinn að dala í hástökki og kúluvarpi. Hörður Ingólfsson var í fullu fjöri en það dugði ekki til. Hann vann 100 metra hlaup og langstökk og varð stigahæstur með 11 stig. Þórir Ólafsson vann hástökk og hlaut alls 8 stig. Hinn gamli garpur, Janus Eiríksson, keppti á sínu 19. móti og náði í stig í spjótkasti. Alls vann þessi þrautseigi bóndi í Óskoti 12 sigra á mótunum og lauk nú sínum langa og glæsilega ferli. Úrslit mótsins urðu þau að Drengur sigraði með 33 stig en Afturelding hlaut 27 stig.108 Eftir þetta lögðust mótin af og þessi merkilega saga sem hófst í Kollafirði árið 1918 endaði í Félagsgarði 39 árum seinna. Þarna var hlaupið, stokkið, kastað, synt og glímt og margir garpar unnu fræga sigra. Síðustu árin var þetta orðin einstefna Aftureldingar sem einokaði sigurinn í mótinu og hefur eflaust líka sigrað í því næstsíðasta. En Drengir sneru dæminu við og luku mótunum með sigri. Þar með liggja úrslit mótanna fyrir. Í þeim sigraði Afturelding 20 sinnum, Drengur 15 sinnum og Íþróttafélagið Stefnir einu sinni. Og lýkur þar að segja frá íþróttamótum Aftureldingar og Drengs. Þórður Guðmundsson á Reykjum í hástökki á Hvalfjarðareyri 1949. Axel Jónsson stendur við hástökkssúlurnar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==