153 Tuttugasta og þriðja mótið var haldið á Bugðubökkum í Kjós 15. ágúst 1943. Gísli Andrésson á Hálsi setti mótið en Ólafur Thors alþingismaður hélt ræðu og afhenti félögunum bikar að gjöf. Skyldi hann veitast stigahæsta manni mótsins hverju sinni en vinnast til eignar ef sami maður ynni hann þrisvar í röð eða fimm sinnum alls. Þá var stigakeppni mótanna breytt þannig að nú fengu fjórir menn í hverri grein stig, 4-3-2-1. Á þessu móti keppti Halldór Lárusson frá Brúarlandi í fyrsta sinn, 16 ára gamall, en hann varð einn mesti afreksmaður mótanna. Hinn hávaxni og stælti Gísli Andrésson á Hálsi varð stigahæstur með 13 stig en hann sigraði í kúluvarpi og kringlukasti og vann til stiga í hlaupum og stökkum. Næstur kom Janus Eiríksson í Óskoti með 12 stig fyrir þrjá sigra, í 100 metrum, hástökki og langstökki. Janus var knár þótt hann væri ekki hár en Gísli á Hálsi var um það bil fetinu hærri. Davíð Guðmundsson í Miðdal vann glímuna enda nýkrýndur sigurvegari á landsmótinu á Hvanneyri. Keppnin var hnífjöfn en Afturelding sigraði á mótinu með 42 stig gegn 38 stigum Drengs. Tuttugasta og fjórða mótið fór fram að Tjaldanesi í Mosfellsdal 27. ágúst 1944. Keppt var í fimm greinum frjálsíþrótta, sundi og glímu og voru keppendur 17. Reykjabræðurnir risavöxnu, Jón og Sveinn Guðmundssynir, voru atkvæðamiklir á mótinu fyrir Aftureldingu. Jón varð stigahæstur með 14 stig og hreppti bikarinn en Sveinn kom á hæla hans með 13 stig. Janus Eiríksson var þriðji með 12 stig og vann 100 metra hlaupið að vanda. Njáll í Miðdal lagði Davíð bróður sinn í glímunni en Reykjabræður einokuðu sundið. Afturelding sigraði með yfirburðum, hlaut 47 stig en Drengur náði aðeins 23 stigum. Frá hraðmóti Akureyringa og UMSK 7. júlí 1952. Lokasprettur í 100 metra hlaupi. Lengst til vinstri er Hörður Ingólfsson sem varð þriðji. Þá sigurvegarinn Leifur Tómasson, Hermann Sigtryggsson sem varð annar og Höskuldur Goði Karlsson sem kom fjórði í mark. Frá AD-móti í Tjaldanesi 1940. Þrír efstu menn í langstökki: Janus Eiríksson í Óskoti stökk lengst, 6,14 m, Axel Jónsson í Hvítanesi stökk 6,04 m og Gísli Andrésson á Neðra-Hálsi stökk 5,64 m. Frá íþróttamóti Aftureldingar og Drengs í Tjaldanesi 1940. Þrír efstu í kúluvarpi: Axel Jónsson Hvítanesi kastaði 11,66 m, Gísli Andrésson Neðra-Hálsi 11,31 m og Alexíus Lúthersson Ingunnarstöðum 10,25 m.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==