152 leik. Hástökkið vannst á 1,75 m og þá hæð átti Tómas vísa á góðum degi. Hörður Ingólfsson varð annar í langstökki og Skúli Skarphéðinsson annar í 400 metra hlaupi. Með alla þessa spretthörðu menn var hugur í UMSKmönnum að vinna 4 x 100 metra boðhlaupið. Helstu keppinautar þeirra voru Skarphéðinsmenn sem áttu afar harðskeytta hlaupara eins og Einar Frímannsson, Árna Guðmundsson og Magnús Gunnlaugsson sem vann 400 metra hlaupið rétt á undan Skúla Skarphéðinssyni. Boðhlaupssveit UMSK var öll úr Aftureldingu en hana skipuðu bræðurnir Halldór og Tómas Lárussynir, Hörður Ingólfsson og gamli keppnisjaxlinn Janus Eiríksson. Hann var aðeins þrítugur þótt hann væri nú að keppa á sínu fimmta landsmóti. Reyndar var Skúli talinn sprettharðari en Janus en hann var nýkominn úr 400 metra hlaupinu svo Janus var munstraður á annan sprett. Ekki byrjaði hlaupið vel. Hörður ætlaði að nota litla þúfu sem viðspyrnu í startinu en hún gaf eftir og hann hrasaði og var nærri dottinn. Þetta sló Hörð út af laginu svo sveitin var talsvert á eftir Sunnlendingum þegar Janus fékk keflið. Hann hljóp eins og vindurinn og dró talsvert á andstæðinginn. Tómas tók við af honum og fór fram úr Skarphéðinsmanninum sem hafði forystu. Síðasta sprettinn tók Halldór og skilaði öruggum sigri við mikla gleði UMSK-manna. Janusi varð að orði eftir hlaupið: „Ég dró á dónann!“ og varð það að orðtaki í Mosfellssveit lengi á eftir. Handknattleiksstúlkurnar 10 voru frá Aftureldingu og Dreng, fimm frá hvoru félagi. Þær þurftu ekki lengi að bíða eftir úrslitum því liðin í keppninni voru aðeins tvö. Andstæðingar þeirra voru frá UÍA og þar með á heimavelli. Það kom ekki í veg fyrir að UMSK-stúlkurnar sigruðu með tveimur mörkum gegn engu og fengu því gullpening í barminn. Útkoman varð sú að þessir 20 keppendur úr UMSK náðu 25 stigum sem dugði þeim í fjórða sæti af 13 í stigakeppninni. Þetta var ágætis árangur en mátti þó varla minna vera fyrir metnaðarfullt samband eins og UMSK. Skarphéðinsmenn voru með einvalalið og stungu af í stigakeppninni með 84 stig, næstum helmingi meira en Austfirðingar sem komu næstir.101 Aukamót á Akureyri Frá Eiðum var farið á mánudagsmorgni 7. júlí 1952 og haldið rakleitt til Akureyrar. Þar var slegið upp íþróttamóti síðdegis og keppt við keppnisþyrsta heimamenn. Hjá íþróttafélögunum KA og Þór voru öflugir íþróttamenn sem ekki fengu að vera með á landsmóti UMFÍ því það var einungis fyrir ungmennafélaga. Leifur Tómasson, einn mesti afreksmaður Akureyringa, var mikill vinur Tómasar Lárussonar og einnig skólabróðir Harðar Ingólfssonar frá íþróttakennaraskólanum. Það var því auðsótt af þeirra hálfu að koma þessari keppni á laggirnar. Þarna voru líka keppendur af Suðurnesjum og úr Skagafirði. Á mótinu voru unnin ágætis afrek því öfugt við það sem menn hefðu haldið stóðu ungmennafélagar sig býsna vel gegn óþreyttum Akureyringum þótt þeir væru nýkomnir úr mikilli keppni og langri rútuferð. Boðhlaupssveit UMSK náði öðru sæti gegn geysisterkri sveit KA-manna og hljóp á betri tíma en á landsmótinu daginn áður. Þarna hljóp Skúli Skarphéðinsson 400 metrana á 53,9 sek. sem var héraðsmet og hefði dugað honum til sigurs á Eiðum. Móttökur heimamanna voru höfðinglegar og þeir skiptu hópnum á milli sín í kvöldmat eftir mótið. Svo var bara stigið upp í rútuna aftur og haldið heim um nóttina. Þá dormuðu nú flestir í sætum sínum mestalla leiðina.102 Endalok AD-mótanna Þegar hér var komið sögu árið 1943 höfðu hin sögufrægu íþróttamót Aftureldingar og Drengs farið fram tuttugu og tvisvar sinnum og virtist ekkert lát á þeim. Úrslit mótanna voru skilmerkilega skráð í bókina góðu sem átti öruggan sess í tréskríninu fílabeinsbúna sem geymt var til öryggis í eldtraustum járnkassa. Enda hefur ekkert orðið bókinni að grandi hvorki fyrr né síðar. Sveit UMSK sem sigraði glæsilega í 4x100 metra boðhlaupi á Eiðum 1952. Hörður Ingólfsson, Tómas Lárusson, Halldór Lárusson og Janus Eiríksson voru allir frá Umf. Aftureldingu.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==