Aldarsaga UMSK 1922-2022

146 var á heimavelli, sigraði örugglega í stigakeppni mótsins og hóf þá átta móta sigurgöngu sem ekki lauk fyrr en áratugum seinna og þá fyrir tilstilli UMSK. En það er önnur saga sem síðar verður sögð.84 UMSK 30 ára Ungmennasamband Kjalarnesþings fagnaði 30 ára afmæli sínu haustið 1952. Stjórnin var einhuga um að minnast þessara tímamóta með veglegum hætti og skipaði þriggja manna afmælisnefnd til að sjá um herlegheitin. Í hana völdust miklir félagsmálagarpar, þeir Ólafur Ágúst Ólafsson Valdastöðum, Lárus Halldórsson Brúarlandi og Grímur Norðdahl frá Úlfarsfelli. Í fréttatilkynningu í Tímanum var afmælisdagur sambandsins ranglega sagður vera 1. október en ekki 19. nóvember eins og rétt er. Þessi misskilningur mun hafa sprottið af því að skjöl sambandsins höfðu lent á hrakhólum og lengi vel var afmælisdagur þess á reiki þótt hið rétta kæmi fram að lokum.85 Nefndin efndi til veglegs afmælishófs að Hlégarði sunnudaginn 19. október. Þangað var boðið öllum fyrrverandi stjórnarmönnum sambandsins, einnig sigursveit íþróttamanna frá landsmótinu í Haukadal 1940 og ýmsum eldri íþróttagörpum. Meðal boðsgesta var stjórn UMFÍ, forseti ÍSÍ, formenn ungmennafélaga sambandsins og Guðmundur Í. Guðmundsson, sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu, ásamt Ólafi Thors, þingmanni kjördæmisins. Guðmundur var að vísu fjarverandi en Ólafur bætti það upp með nærveru sinni og loforði um að gefa verðlaunabikar á héraðsmótið sem hann efndi fjórum árum síðar. Síðast en ekki síst var Tómas Lárusson, tugþrautarmeistari síðasta Íslandsmóts, meðal heiðursgesta. Háborðið var vel skipað en ekki fjölmennt svo almenningi var gefinn kostur á að vera með. Aðgangseyrir var 25 krónur með kaffi fyrir manninn en 15 krónur fyrir þá sem aðeins komu til að dansa. Samkoman hófst klukkan fimm síðdegis en dagskrá stóð til kvölds. Axel Jónsson, formaður UMSK, setti samkomuna en síðan hófst sameiginleg kaffidrykkja. Þá fluttu Lárus Halldórsson og Grímur Norðdahl þátt þar sem þeir fóru yfir sögu sambandsins. Þar kom margt fróðlegt fram og var gerður góður rómur að máli þeirra. Því næst voru eldri íþróttagarpar heiðraðir og afhenti formaður þeim skrautrituð þakkarskjöl. Margar ræður voru fluttar og sambandinu færðar góðar gjafir. Svo sungu menn af hjartans lyst inn á milli ræðuhaldanna. Að síðustu dunaði dansinn í sölum Hlégarðs til klukkan eitt um nóttina.86 Starfsíþróttir teknar með trompi Landsmót UMFÍ höfðu unnið sér traustan sess um miðja síðustu öld og greinum þeirra fjölgaði jafnt og þétt. Þegar landsmót stóð fyrir dyrum á Eiðum á Héraði sumarið 1952 var bryddað upp á nýmæli sem átti sér fyrirmynd á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum. Það voru hinar svokölluðu starfsíþróttir sem drógu einkum dám af vinnubrögðum og viðmiðum á landsbyggðinni. Keppt var í þremur greinum starfsíþrótta á Eiðum og sambönd UMFÍ voru hvött til að taka þátt í þeim. Axel Jónsson, formaður UMSK, setur afmælisfagnað sambandsins í Hlégarði 1952.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==