Aldarsaga UMSK 1922-2022

124 var mál málanna vorið 1944. Ungmennafélagar létu sjálfstæðismálið til sín taka svo um munaði og þar voru UMSK-menn engir eftirbátar. Á ársþingi sambandsins haustið 1943 var einróma samþykkt eftirfarandi tillaga um þessi mál: 21. þing UMSK lýsir ánægju sinni yfir tillögu stjórnarskrárnefndar og yfirlýsinga meirihluta Alþingis í sjálfstæðismálinu. Skorar þingið á alla Íslendinga að standa einhuga um stofnun íslensks lýðveldis þann 17. júní 1944. Jafnframt beinir þingið þeim tilmælum til hinna fáu Íslendinga sem enn halda uppi andróðri gegn þessari sjálfsögðu lausn málsins, að láta hann niður falla þegar í stað svo að þjóð vor verði einhuga þegar gengið verður til þjóðaratkvæðis um stofnun lýðveldisins. Jafnframt samþykktu UMSK-menn að þeir teldu sjálfsagt að 17. júní yrði framvegis haldinn sem þjóðhátíðardagur Íslendinga og skoruðu á ungmennafélögin að beita sér fyrir hátíðarhöldum þann dag, hvert á sínu félagssvæði.37 Í Skinfaxa, sem kom út vorið 1944, skorti ekki brýningar til ungmennafélaga að duga nú vel. Þar létu allir formenn héraðssambandanna til sín heyra og erindi það sem Gísli Andrésson á Neðra-Hálsi, formaður UMSK, sendi inn var svohljóðandi: Við stöndum nú á tímamótum. Sú stund nálgast að við Íslendingar endurheimtum frelsi okkar eftir nærfellt sjö alda yfirráð erlendra þjóða. Um 30–40 ára skeið hafa ungmennafélög starfað víðsvegar um landið og hefur fyrsti liður á stefnuskrá þeirra verið sá að vernda og efla stjórnarfarslegt, menningarlegt og fjárhagslegt frelsi Íslendinga. Þau hafa viðhaldið og örvað sjálfstæðisþrá þjóðarinnar, meðal annars með því að halda hátíðlegan afmælisdag fullveldisins, 1. desember og fæðingardag Jóns Sigurðssonar 17. júní. Ég tel því ekki ástæðu til að ætla að nokkur ungmennafélagi æski annars en fullra sambandsslita við Dani. En það er annað sem við þurfum að gjalda varhuga við. Raddir hafa komið fram, meðal annars hjá mönnum sem standa framarlega í menntamálum þjóðarinnar, að ekki sé tímabært nú að ganga að fullu frá sambandsslitum vegna aðstöðu sambandsþjóðarinnar sem þó að mínu áliti og ég vona allra ungmennafélaga getur ekki búist við nema einni afstöðu okkar Íslendinga. Vegna þessara radda getum við búist við nokkrum Nei atkvæðum í atkvæðagreiðslunni um sambandsslitin. Auðvitað efumst við ekki um úrslit þeirrar atkvæðagreiðslu en til þess að hún geti gefið sem fullkomnasta mynd af vilja þjóðarinnar, þá er áríðandi að allir sem kost eiga á, greiði atkvæði. Ég vil því skora á ykkur ungmennafélagar, sérstaklega félaga mína innan UMSK, að vinna ötullega að því að hver einasti kosninga-kjörskráður maður og kona í okkar byggðarlögum sem aðstöðu hefur til, mæti við kjörborðið í vor þegar sambandinu verður slitið og landið okkar hlýtur sjálfstæði að nýju.38 Á Laugum 1946 Sjötta landsmót Ungmennafélags Íslands var haldið að Laugum í Reykjadal í júlí 1946. Strax um vorið hélt stjórn UMSK fund með íþróttanefndinni og þá var einróma ákveðið að senda keppnislið á mótið. Rætt var um æfingar, ferðakostnað og val á keppendum og var hugur í mönnum. Fjáröflunarnefnd hélt dansleik með bögglauppboði í hermannabragganum, sem Afturelding átti norðan við Helgafell í Mosfellssveit, því ekki veitti af að hafa upp í ferðakostnað. Vitað var að hann myndi verða töluverður því ekkert skyldi til sparað hvað snerti fjölda keppenda. Baldur Kristjónsson íþróttakennari var fenginn til að þjálfa íþróttafólk sambandsins þrisvar í viku allan júnímánuð og þá var allt klappað og klárt. Kostnaður við undirbúninginn og ferðina norður nam 10.500 krónum þegar upp var staðið sem voru næstum því allar tekjur sambandsins þetta árið. Sýslusjóður Kjósarsýslu veitti 5.000 króna styrk til fararinnar sem létti róðurinn mikið. Svo var farið norður með rútu og lagt af stað að áliðnum degi. Menn flýttu sér hægt á leiðinni til Lauga og gistu fyrstu nóttina í Reykjaskóla í Hrútafirði. Að kvöldi annars dags komu menn í Vaglaskóg og tjölduðu þar í sól og sumaryl. Þarna var ungt fólk og lífsglatt og einhver tók fram harmónikku og svo var dansað. Árdegis á laugardegi komu menn til Lauga og þá hófst mótið. Gísli Andrésson á NeðraHálsi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==