Aldarsaga UMSK 1922-2022

122 inni heim. Orðin illa sofin. Ég slapp nú alveg þangað til við vorum búin að leika, þetta var á heimleiðinni. En maður lagði nú töluvert á sig, ég held að ég hafi átt eitt eða tvö börn heima þegar þetta var.28 Áfram var haldið og næsta leikrit varð ekki síður vinsælt. Köld eru kvennaráð var sýnt 17 sinnum veturinn 1959 og hefðu sýningar eflaust orðið fleiri ef inflúensa hefði ekki farið að herja á leikarahópinn. Klemens Jónsson var áfram leikstjóri og einnig á leikritinu Einkalíf sem sýnt var 1960. Árið 1961 voru sýndir tveir gamanþættir í leikstjórn Kristjáns Jónssonar. Það voru Kvöldið fyrir haustmarkað og Sér grefur gröf. Sex sýningar urðu á þessum leikþáttum en þá var leikhópurinn farinn að sýna þreytumerki. Að því búnu sofnaði leiklistargyðjan í Mosfellssveit værum svefni og svaf næsta áratuginn.29 Leiklist á Kjalarnesi Ungmennafélag Kjalnesinga var stofnað árið 1938 og fljótlega kom leiklistin þar til sögunnar. Í skýrslu félagsins til UMFÍ árið 1944 er skýrt frá því að haldnar hafi verið: „2 innansveitarsamkomur og var þar leikrit sem félagar léku, eins voru sýndar kvikmyndir.30 Einnig er getið um leiksýningar árin 1951 og 1952 og þess utan farnar hópferðir í Þjóðleikhúsið. Eftir það voru kvikmyndasýningar og félagsvist látin nægja. Margt bendir til að leiksýningarnar árið 1944 séu þær sem Ragnheiður Finnsdóttir, ritari félagsins og síðar skólastjóri Klébergsskóla, ritaði um í 50 ára afmælisriti félagsins en frásögn hennar var á þessa leið: Minning um leiksýningu á Kjalarnesi Skömmu eftir að Ungmennafélag Kjalnesinga var stofnað urðu miklar umræður um það hvaða verkefni skyldu tekin fyrir í byrjun. Eitt af þeim verkefnum var að reynt yrði að sýna leikþætti svo halda mætti skemmtanir þar sem á dagskrá yrðu auk leikrita, upplestur og söngur. Þannig var mál með vexti að slíkar skemmtisamkomur höfðu ekki verið haldnar á Kjalarnesinu í áratugi. Það ég best veit höfðu slíkar samkomur aldrei verið haldnar í skólahúsinu á Klébergi sem þá var einnig samkomuhús sveitarinnar. Það gefur auga leið að þar sem slíkt félagsstarf hafði aldrei verið í byggðarlaginu voru fáir eða engir sem höfðu stigið á fjalir í leikhúsi en þó vildi svo til að ég hafði hlotið dálitla tilsögn og æfingu því viðkomandi. Mér var svo falið að sjá um framkvæmd málsins og urðu tveir einþáttungar fyrir valinu. Ekki man ég hverjir léku í þessari fyrstu leiksýningu nema að Kolbeinn Kolbeinsson frá Kollafirði og ég lékum aðalhlutverkin. Hitt er mér alveg ógleymanlegt hvílík vinnugleði ríkti á æfingunum og í öllu því starfi sem að þessu laut. Fólkið kom gangandi á kvöldin á æfingarnar, eftir mjaltir, svo að næturhvíldin var oft af skornum skammti. Augljóst var að ekki yrði hægt að halda leiksýningu án leiksviðs en það var auðvitað ekki í húsinu. Kolbeinn fékk þá lánaðan vörubíl og fór í bæinn og keypti timbur. Leiksviðið átti svo að setja upp í leikfimissal hússins og í sameiningu tókst okkur að smíða leiksvið þó við hefðum engan smið. Leiktjöld þurftum við einnig og nú vandaðist málið. Aftur var vörubíllinn góði fenginn að láni og ég fór niður að Álafossi og keypti fallega rautt ullarefni sem sómdi sér hið besta sem leiktjöld og fékk þar gefins stóra viðargardínuhringi svo hægt væri að draga frá og fyrir. Einnig keypti ég í sömu ferð smink svo hægt væri að farða leikarana. Svo rann sýningardagurinn upp. Skemmtunin hafði verið auglýst á öllum bæjum í sveitinni. Veður var hið besta og á skömmum tíma var salurinn fullskipaður. Við sem að þessari sýningu stóðum settum allan okkar metnað í að þessi kvöldsýning mætti vel takast og ef svo yrði þá myndu verða þáttaskil í félagslífi á Kjalarnesi. Okkur var klappað lof í lófa og skömmu seinna vorum við beðin að endurtaka þessa sýningu inn í Kjós. Skólinn naut mjög góðs af þessu framtaki. Mánuði seinna hélt hann árshátíð sína með leiksýningu og fleiru. Síðan var leiksviðið og allt því fylgjandi tekið niður, sett upp á loft og geymt til næsta árs. Þessi starfsemi ungmennafélagsins hélst síðan til 1945 eða lengur.31 Ragnheiður Finnsdóttir, fyrrum gjaldkeri Umf. Kjalnesinga og skólastjóri Klébergi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==