Aldarsaga UMSK 1922-2022

108 í langstökki og hástökki árið 1948 en hætti að mestu íþróttakeppni eftir landsmótið á Eiðum 1952. Tómas Lárusson var mikill léttfeti, feikilega sprettharður og afar snarpur stökkvari. Hann vann 16 sigra sína á héraðsmótum árin 1949–1953 í 100 og 400 metra hlaupum, hástökki, langstökki, þrístökki og stangarstökki. Tómas var góður tugþrautarmaður og tók meðal annars þátt í hinu mikla tugþrautareinvígi sem Örn Clausen og Frakkinn Ignace Heinrich háðu á meistaramóti Íslands á Melavelli árið 1951. Vissulega féll Tómas í skuggann af hinum frægu keppinautum sínum en náði engu að síður 5. besta árangri Íslendings í þrautinni. Þessir sigursælu bræður hefðu farið létt með að sigra í stigakeppni héraðsmótsins ásamt félögum sínum í Aftureldingu hefði hún verið fyrir hendi. En stigakeppni mótsins var á milli einstaklinga en ekki félaga til að byrja með og þar voru þeir Halldór og Tómas nánast ósigrandi fyrsta áratuginn. Janus Eiríksson í Óskoti var einnig frábær íþróttamaður og vann marga sigra í spretthlaupum og langstökki. Hann var lágvaxinn en bæði snarpur og sprettharður. Fæddur fimleikamaður og æfði fimleika með Ármanni um tíma. Hann stundaði lengi íþróttir með góðum árangri og var ómissandi í boðhlaupssveitum Aftureldingar og UMSK allt fram á fertugsaldur. Bræðurnir á Reykjum, Sveinn, Jón og Þórður Guðmundssynir, voru einnig liðtækir enda stórir menn og stæðilegir. Jón var góður kastari og Sveinn ágætur stökkvari. Þórður var hvort tveggja. Þá var Ásbjörn Sigurjónsson á Álafossi öflugur kúluvarpari og sterkur í hástökki. Skúli Skarphéðinsson á Minna-Mosfelli stóð sig vel í stökkum og 400 metra hlaupi. Þegar kom fram á sjötta áratuginn var hinn nettvaxni en eldfljóti Hörður Ingólfsson í Fitjakoti tekinn við sem besti spretthlauparinn. Allir þessir voru liðsmenn Aftureldingar í Mosfellssveit sem bar ægishjálm yfir önnur félög sambandsins. Kjósarmenn áttu einnig góða íþróttamenn. Axel Jónsson frá Hvítanesi var í fremstu röð á fyrstu héraðsmótunum sem spretthlaupari og stökkvari. Halldór Magnússon í Hvammsvík var fyrstur í röð góðra kastara í Kjósinni en svo komu Njáll Guðmundsson í Miðdal og Magnús Lárusson í Káranesi. Sigurjón Jónsson frá Hvítanesi var góður í hástökki og 400 metra hlaupi og þannig mætti áfram telja. Einn sá fjölhæfasti var Ólafur Ingvarsson frá Laxárnesi sem gerði garðinn frægan á landsmótum UMFÍ á sjötta áratugnum. Í úrslitum 100 metra hlaupsins á héraðsmótinu 1949 voru þeir Tómas Lárusson, Jón M. Guðmundsson, Skúli Skarphéðinsson og Sigurberg Elentínusson. Mótið var haldið á Hvalfjarðareyri í leiðindaveðri. Þá voru hlauparar ræstir með því að veifa klút því rásbyssur voru ekki tiltækar. Jón var langfyrstur af stað en endaði í þriðja sæti. „Jón á Reykjum var ótrúlega snarpur af svo stórum manni að vera,“ sagði Tómas. „Hann þaut af stað áður en ræsirinn gaf merki í þessu hlaupi en við Skúli náðum honum nú samt.“11 Lengi vel voru karlarnir einir um íþróttahituna. Það var ekki fyrr en á héraðsmótinu 1950 sem konum var hleypt inn á íþróttavöllinn til keppni. Íþróttakonurnar, sem flestar voru úr Mosfellssveit, nýttu sér óspart hið nýfengna frelsi. Keppt var í 80 metra hlaupi og kúluvarpi. Í hlaupinu var hörkukeppni. Soffía Finnbogadóttir á Sólvöllum sigraði á 11,2 sek. en þrjár næstu voru með tímann 11,3 sek. Guðný Steingrímsdóttir á Álafossi sigraði í kúluvarpi, varpaði kúlunni 9,45 m sem reyndist vera nýtt Íslandsmet. Frjálsíþróttir kvenna voru að slíta barnsskónum á þessum árum og metin féllu óspart. Á tíu ára afmæli Ungmennafélags Reykjavíkur yngra árið 1952 voru þessir félagsmenn heiðraðir: Baldur Kristjónsson, Skúli H. Norðdahl, Kjartan B. Guðjónsson, Sveinn Sæmundsson, Erlingur Pálsson og Guðbrandur Magnússon. Myndin er tekin í félagsheimili Umf.R við Holtaveg sem seinna varð aðsetur KFUM og KFUK.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==