Aldarsaga UMSK 1922-2022

106 Gengið í Íþróttasambandið Eins og sagt var frá í fyrri hluta þessarar bókar börðust ungmennafélagar fyrir því að íþróttamenn þeirra gætu keppt á íþróttamótum innan ÍSÍ undir merkjum héraðssambanda sinna. Stjórn Íþróttasambands Íslands, með Benedikt G. Waage forseta í fararbroddi, þumbaðist gegn þessum kröfum lengi vel og taldi að íþróttakeppni gæti aðeins farið fram á vegum einstakra íþrótta- og ungmennafélaga. Ungmennafélagar bentu á landsmót UMFÍ sem fyrirmynd en þar fór keppnin fram á milli héraðssambandanna. ÍSÍ-menn lögðu ekki í að banna slíkt með öllu en veittu samböndunum sérstakar undanþágur til keppni á hverju landsmóti. UMSK-menn voru fremstir í flokki ungmennafélaga sem vildu breyta þessu og þeir voru öflugur þrýstihópur. Svo fór að stjórnarmenn ÍSÍ sáu sér ekki fært að standa gegn kröfum ungmennafélaganna og þetta var loks samþykkt á þingi ÍSÍ árið 1940 og eftir það gátu íþróttamenn úr UMSK keppt undir merki sambandsins á mótum ÍSÍ en reyndar með leyfi þess hverju sinni. Stjórnarmönnum ÍSÍ mislíkaði að hafa orðið undir í þessu máli og nú hertu þeir sóknina með kröfum sínum um að enginn mætti taka þátt í íþróttakeppni nema vera í félagi sem tilheyrði ÍSÍ. Gekk ekki á öðru en sífelldum undanþágum hjá þeim sem ekki voru í samtökunum og stjórn ÍSÍ lét ekki hjá líða að minna menn á inngöngu í hvert sinn sem undanþága var veitt. Loks þótti UMSK ekki stætt á öðru en ganga í raðir ÍSÍ og á þingi sambandsins árið 1946 var sú ákvörðun tekin. Umsókn UMSK var tekið fagnandi af stjórn ÍSÍ og hún staðfest 6. febrúar 1946. Þar með voru UMSK allir vegir færir á íþróttasviðinu og umsóknir til ÍSÍ um undanþágur við íþróttakeppni heyrðu sögunni til. Ungmennafélag Reykjavíkur hverfur á braut Á þingi UMSK 1945 gerðist það að Ungmennafélag Reykjavíkur neyddist til að segja sig úr sambandinu þar sem hið nýstofnaða Íþróttabandalag Reykjavíkur gerði kröfu um að félagið væri innan vébanda þess. Lög ÍSÍ bönnuðu einstökum félögum að vera í tveimur samböndum samtímis og það var því með nokkrum trega sem Stefán Runólfsson, formaður Umf. Reykjavíkur, flutti eftirfarandi tillögu á þinginu: Þar sem vitað er að UMSK ætlar að ganga í ÍSÍ, en lög þess mæla svo fyrir að ekkert félag geti verið í tveimur samböndum innan ÍSÍ, en Umf. Reykjavíkur er þegar í ÍBR, segir það sig hér með úr UMSK. Óskar sambandinu allra heilla, þakkar góða samvinnu og vonast til að hún haldist um ófyrirsjáanlega framtíð. Stjórn Umf.R.7 Tillagan var samþykkt en þingfulltrúar hörmuðu að aðstæður hefðu rekið Umf.R til að segja sig úr sambandinu. Það var óneitanlega mikill hnekkir fyrir fámennt héraðssamband að missa stærsta félagið úr félagsskapnum en við því varð ekki spornað. Þetta var gjaldið sem þurfti að greiða fyrir aðganginn að ÍSÍ sem stóð fyrir dyrum. Samskipti UMSK og Umf. Reykjavíkur voru vinsamleg þau 16 ár sem félagið starfaði eftir þetta en eins og vænta mátti dró mjög úr þeim við þessa breytingu. Umf.R átti sér blómaskeið um miðja öldina. Það einbeitti sér mjög að þjóðaríþróttinni og var öflugasta glímufélag landsins á sjötta áratugnum. Helsti glímuþjálfarinn var Lárus Salómonsson, fyrrum glímukóngur, og helsti afreksmaður félagsins var sonur hans, Ármann J. Lárusson. Ármann hélt Grettisbeltinu, sigurtákni Íslandsglímunnar, í sínum höndum í einn og hálfan áratug næstum því samfellt. Hann gekk síðar í Umf. Breiðablik þegar Reykjavíkurfélagið lagði upp laupana. Þau urðu endalok Ungmennafélags Reykjavíkur að það reisti sér hurðarás um öxl með byggingu félagsheimilis við Holtaveg þar sem nú eru höfuðstöðvar KFUM og KFUK. Félagið varð gjaldþrota og hætti störfum árið 1962. Félagsmenn Umf. Reykjavíkur kepptu sem gestir á héraðsmóti UMSK 1946 og 27. ágúst 1950 fór fram keppni milli félagsins og UMSK í drengja- og kvennagreinum á Leirvogstungubökkum. Keppnin var lífleg og spennandi en heildarúrslit urðu þau að UMSK bar sigur úr býtum í drengjakeppninni, 78 stig gegn 74 en Umf.R vann kvennakeppnina með 67 stigum gegn 38. Þar setti Þórshandleggur með reiddan hamar í þrumuskýi var merki Íþróttasambands Íslands.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==