103 Fámennt en þróttmikið sveitasamband Árið 1943, við upphaf þess tímabils sem fjallað er um í kaflanum, var Ungmennasamband Kjalarnesþings fámennt héraðssamband í sveit. Þéttbýlið, sem myndaðist síðar á sambandssvæðinu allt í kringum Reykjavík, var þá ekki komið til sögunnar. Ungmennafélög í UMSK voru ekki nema fjögur og félagsmenn þeirra aðeins 450 talsins. Þar munaði mest um hið nýstofnaða Ungmennafélag Reykjavíkur sem hafði 213 félaga. Þess naut þó ekki lengi því það gekk úr UMSK yfir í Íþróttabandalag Reykjavíkur, – ÍBR, árið 1945 og þá stóðu þrjú félög eftir. Sem fyrr voru Kjósarmenn og Mosfellingar burðarásar sambandsins, studdir af hinu fimm ára gamla Ungmennafélagi Kjalnesinga sem var mitt á milli stórveldanna. Fróðlegt er að bera stöðu UMSK á þessum tíma saman við nágrannasamböndin, UMSB og HSK. Ungmennasamband Borgarfjarðar hafði á að skipa 11 ungmennafélögum með rúmlega 600 félagsmönnum og fyrir austan fjall státaði Héraðssambandið Skarphéðinn af 20 ungmennafélögum, innan sinna vébanda, með 1478 félagsmenn. Bæði þessi sambönd stóðu traustum fótum íþróttalega og höfðu haldið sín héraðsmót áratugum saman. UMSK hafði aldrei haldið héraðsmót. Austfirðingar, – UÍA, voru fjölmennastir innan UMFÍ með 24 félög og í þeim 1600 manns en flest hinna 16 héraðssambanda landsins voru þó á svipuðum slóðum og UMSK hvað snerti fjölda félagsmanna. Ungmennafélagshreyfingin taldi rúmlega 8000 félaga í allt og ungmennafélögin voru tæplega 200. Það þýddi að ungmennafélögin voru býsna fámenn sum hver með 40 félagsmenn til jafnaðar og UMFÍ var langt frá því að vera fjöldahreyfing. En hinn félagslegi styrkur var miklu meiri en höfðatalan sagði til um. Ungmennafélagar voru miklir hugsjónamenn sem börðust fyrir betra mannlífi í landinu og höfðu mikinn hljómgrunn í dreifbýlinu. Í kaupstöðum réðu hinsvegar íþróttafélögin ríkjum og ungmennafélög voru þar tæpast nefnd á nafn. UMFÍ var því hreyfing landsbyggðarinnar. UMSK lét til sín taka á þingum UMFÍ sem haldin voru á þriggja ára fresti samhliða landsmótunum. Á þingi UMFÍ á Hvanneyri 1943 átti UMSK fimm fulltrúa og var næstfjölmennasta sambandið. Þar lagði Gestur Andrésson til, við góðar undirtektir, að landsmótin yrðu fest í lög sambandsins.1 Einnig lögðu fulltrúar UMSK, þeir Ólafur Þórðarson og Gísli Andrésson, fram tillögu á þingi UMFÍ á Laugum 1946 um hagstæðar lánveitingar ríkisins til félagsheimila. Hún var samþykkt einróma og greiddi götuna að stofnun Félagsheimilasjóðs sem kom í góðar þarfir við byggingu Félagsgarðs í Kjós og Hlégarðs í Mosfellssveit svo dæmi séu tekin.2 Tveir öflugir liðsmenn sambandsins sátu árum saman í stjórn UMFÍ: Gísli Andrésson á Hálsi var varaformaður samtakanna í 16 ár, 1943–1959 og Grímur Norðdahl var meðstjórnandi um 12 ára skeið, 1943–1955.3 Stjórn UMSK árið 1943 skipuðu þeir Páll S. Pálsson Reykjavík formaður, Gísli Andrésson á Neðra-Hálsi í Kjós ritari og gjaldkeri var Ólafur Þórðarson á Varmalandi í Mosfellssveit. Páls naut ekki lengi við í formannssætinu því hann hætti í desember eftir eins árs starf en þá tók Gísli við formennskunni og gegndi henni með skörungsskap næstu sex árin. Mosfellingurinn Ólafur Þórðarson gegndi gjaldkerastörfum með honum en ritarar voru ýmsir. Jón M. Ívarsson: Íþróttirnar eflast Saga UMSK 1943–1962
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==