Aldarsaga UMSK 1922-2022

102 hefir glöggan skilning á tilgangi líkamsæfinga og gildi íþrótta, járnharðan vilja og mikinn metnað fyrir félag sitt og ungmennafélagsskapinn. – Í sumar fór hann óæfður frá orfinu á drengjamótið í Reykjavík og gat sér þar góðan orðstír, enda vann félag hans það mót.67 Tíu glímukappar reyndu með sér og allir máttu lúta lágt fyrir Steindóri Gíslasyni á Haugi í Flóa, sem var gamall skjaldarhafi þeirra Skarphéðinsmanna. Njáll í Miðdal í Kjós kom næstur honum og Davíð bróðir hans varð fjórði. Grímur Norðdahl sem hafði margan kappann lagt um dagana mátti reyna að það er ekki sigurvænlegt að vera bæði liðsstjóri og keppandi. Hann var heillum horfinn og varð neðstur keppenda. Grímur var þó kampakátur þegar úrslit mótsins voru tilkynnt því þá kom í ljós að UMSK hafði sigrað með 27 stigum. Næstir komu Borgfirðingar með 21 stig en heimamenn í HSK voru með 16 stig. Þetta var óneitanlega glæsilegur árangur hjá hinu lítt reynda keppnisliði UMSK-manna og varð heldur betur kæti í þeirra herbúðum. Sigurvegarar fengu allir gullna verðlaunapeninga og eftir mótið var UMSK-liðinu afhentur útskorinn tréskjöldur úr rauðaviði sem þeir varðveittu fram að næsta landsmóti. Þessi frumraun hafði tekist vonum framar og hinir fræknu íþróttamenn úr Mosfellssveit og Kjós höfðu með sigri sínum varpað miklum ljóma á nafn Ungmennasambands Kjalarnesþings. Sambandið var orðið stórveldi á íþróttasviðinu. Nýir tímar voru að renna upp. Sigurreifur keppnishópur UMSK að loknu landsmótinu í Haukadal 1940. Fyrir framan krjúpa Skúli Norðdahl á Úlfarsfelli, Janus Eiríksson í Óskoti, Axel Jónsson í Hvítanesi og Karl Jónsson á Hrísbrú. Standandi: Sveinn Guðmundsson á Reykjum, Guðmundur Jónsson í Sogni, Gísli Andrésson á Hálsi, Sigurjón Jónsson í Hvítanesi, Guðmundur Þ. Jónsson í Laxárnesi, Eiríkur Sigurjónsson í Sogni í hvarfi við Davíð Guðmundsson í Miðdal sem lítur til hliðar, Sesselja Erlendsdóttir á Álafossi, Alexíus Lúthersson á Ingunnarstöðum, Sesselja Gunnlaugsdóttir á Laugabóli, Jón M. Guðmundsson á Reykjum, Unnur Sveinsdóttir á Álafossi, Njáll Guðmundsson í Miðdal og Grímur Norðdahl á Úlfarsfelli.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==