Aldarsaga UMSK 1922-2022

100 keppni í drengjamótinu og vöktu heilmikla athygli með frammistöðu sinni því þeir unnu stigakeppni mótsins með einu stigi betur en KR og fóru heim með bikarinn. Þetta voru Janus í Óskoti sem fékk fimm verðlaunapeninga og varð þriðji að stigum, Axel Jónsson í Hvítanesi sem náði öðru sæti í fimm greinum og varð næst stigahæstur á eftir Gunnari Huseby KR. Þriðji kappinn var Guðmundur Þ. Jónsson á Laxárnesi í Kjós sem sigraði og setti íslenskt drengjamet í 3000 metra hlaupinu. Hinir tveir voru Sveinn Guðmundsson á Reykjum og Sigurjón Jónsson í Hvítanesi sem unnu 1000 metra boðhlaup með félögum sínum Axel og Janusi. Mikil spenna var í þrístökkinu sem var lokagrein mótsins en þá stóðu KR og ÍK jöfn að stigum. Þar börðust Gunnar Huseby og Axel Jónsson upp á líf og dauða og endirinn varð sá að Axel stökk nokkrum sentimetrum lengra en Gunnar og náði stiginu sem vantaði til sigurs. Grímur Norðdahl var með í för sem liðsstjóri og hvatti drengina óspart til dáða. Þetta sumar tók Guðmundur á Laxárnesi þátt í langhlaupum á meistaramóti Íslands undir merki ÍK og Axel í Hvítanesi spreytti sig fyrir það í nokkrum greinum á Allsherjarmótinu. En þetta var svanasöngur ÍK því eftir þetta sendi það ekki keppendur á íþróttamót. Sem fyrr segir gerðu reglur Íþróttasambands Íslands einungis ráð fyrir að íþróttamenn gætu keppt undir merkjum íþróttafélaga en ekki héraðssambanda. Þessu vildu héraðssamböndin náttúrlega breyta og þar var UMSK fremst í flokki en talaði lengi vel fyrir daufum eyrum forráðamanna ÍSÍ. Nú var ný kynslóð íþróttaáhugamanna komin til skjalanna og þeim tókst að brjóta ísinn. Leiðréttingin fékkst á ársþingi ÍSÍ sumarið 1940. Formaður og ritari UMSK, Ólafur Þorsteinsson og Grímur Norðdahl, lögðu fram eftirfarandi ályktun sem var samþykkt í einu hljóði: Aðalfundur ÍSÍ 1940 samþykkir að héraðssamböndum ungmennafélaga sé heimilt að koma fram sem einn aðili á opinberum leikmótum enda komi samþykki ÍSÍ til í hvert skipti.65 Litlu síðar var þetta ákvæði tekið upp í lög ÍSÍ og varnaglinn fjarlægður. Þar með var björninn loksins unninn enda var Íþróttafélag Kjósarsýslu lagt niður skömmu síðar. Það hafði lokið hlutverki sínu og UMSK tekið við. Frægðarför til Haukadals Ungmennafélag Íslands hélt tvö vegleg íþróttamót sem kölluð voru 1. og 2. leikmót UMFÍ í Reykjavík árin 1911 og 1914. Þau stóðu dögum saman og vöktu verðskuldaða athygli. Eftir það féllu mótin niður í aldarfjórðung en ungmennafélagar yljuðu sér við minningar um forna frægð. Lengi vel gerðist fátt en loks komu til sögunnar menn sem vildu endurvekja þessi mót. Á þingi UMFÍ 1938 var lögð fram tillaga um að efna til allsherjar íþróttamóts innan UMFÍ og halda það á Akureyri 1940. Tillagan var samþykkt með fögnuði og íþróttamenn ungmennafélaganna fóru að bretta upp ermarnar. Á ársþingi UMSK haustið 1939 var mikið rætt um væntanlegt mót á Akureyri og hvernig að því skyldi staðið. Gestur Andrésson á Hálsi hvatti mjög til þátttöku og taldi að sambandið ætti að geta sent góðan flokk á mótið. Menn voru jafnvel svo stórhuga að láta sér detta í hug að fá varðskip til að flytja ungmennafélaga á mótið. Þingfulltrúar samþykktu einróma að taka þátt í mótinu og veita til fararinnar þann fjárstyrk sem efni framast leyfðu. Sambandsstjórninni var falið að annast undirbúning og framkvæmdir í samráði við stjórnir félaganna. Það var greinilega mikill hugur í mönnum. Fljótlega kom í ljós töluverður annmarki við að halda mótið á Akureyri. Hann var sá að væntanlegur gestgjafi, Ungmennafélag Akureyrar, var um það bil steindautt. Þá var leitað til Sigurðar Greipssonar, skólastjóra í Haukadal og formanns Héraðssambandsins Skarphéðins. Sigurður brást vel við og bauðst til að halda mótið í Haukadal undir forystu HSK. Þar hafði Sigurður rekið íþróttaskóla sinn um árabil og útskrifað marga vaska sveina. Næg húsakynni voru á staðnum og ágæt sundlaug. Ekkert vantaði nema íþróttavöllinn og nemendur Sigurðar útbjuggu hann á sléttum grundum framan við Geysi nokkrum dögum fyrir mótið. Sigurður Greipsson var eldhugi mikill, stórhuga hugsjónamaður og hann lagði sig allan fram við undirbúning mótsins. Hann meira að segja skipulagði sýningarflokk fimleikamanna meðal gamalla nemenda sinna og þeir æfðu eftir bréflegum fyrirmælum Sigurðar. UMSK-menn voru hæstánægðir með að þurfa ekki að fara norður í land en hugðu gott til Haukadals. Ekki var öðrum íþróttamönnum til að dreifa en hjá Aftureldingu og Dreng en þeir voru líka staðráðnir í að standa sig vel. Grímur Norðdahl á Úlfarsfelli, ritari UMSK og mikill áhugamaður um íþróttir, var sjálfkjörinn liðsstjóri UMSK-fólksins. Þeir sprikluðu skipulagslaust um veturinn, að sögn Jóns M. Guðmundssonar á Reykjum, en hófu skipulegar æfingar mánuði fyrir mótið. Liði var skipt þannig að Moskóvítar lögðu mesta áherslu á sundið en Kjósaringar tóku að sér frjálsíþróttir og glímuna. Rúta var tekin á leigu og var hún sex klukkutíma á leið sinni til Haukadals. Innanborðs voru 18 keppendur UMSK, þar af þrjár konur sem kepptu í sundi. Dagskipun

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==